0 C
Selfoss

„Klárið verkið drengir“

Vinsælast

Almenn óánægja er með söluna á Íslandsbanka í höndum fjármálaráðherrans og traust til ráðherrans og ríkisstjórnarinnar hefur beðið hnekki. Ásakanir um spillingu og vanrækslu eru háværar og um að lögin um söluna hafi verið brotin.

Aðferðin sem fjármálaráðherra samþykkti að nota var lokað útboð ætlað hæfum fjárfestum. Við bankasöluna sem átti að vera opin og gagnsæ samkvæmt lögum, hringdu valdir miðlarar í fjárfesta sem þeir þekktu og buðu þeim að taka þátt í útboðinu og þeir fengu góðan afslátt frá markaðsverði.

Þeir sem keyptu

Fólki brá þegar listinn yfir þá sem keyptu var birtur. Nöfn sem þjóðin þekkir af biturri reynslu í aðdraganda bankahruns, faðir fjármálaráðherrans og frændur voru þarna, nokkrir af þeim sem sáu um söluna meira að segja og erlendur fjárfestingasjóður sem keypti og seldi strax með góðum hagnaði í fyrra útboði fékk tækifæri til að leika sama leikinn.

Formaður fjárlaganefndar sagði í ræðu á Alþingi að hún hefði staðið í þeirri trú að um langtímafjárfesta væri að ræða og því hafi niðurstaðan komið á óvart. Formaðurinn hefði átt að vita að Sjálf­stæðis­mönnum er ekki treystandi til að fara með eignir og fjár­mál al­mennings.

Fjármálaráðherrann segist ekki hafa vitað hver keypti en Bankasýslan segir að hvert skref í söluferlinu hafi verið tekið í nánu samstarfi við stjórnvöld. Enda gera lögin um söluna ráð fyrir því.

Lög skulu standa

Mér virðist augljóst að við bankasöluna hafi lög verið brotin. Um sölumeðferðina er fjallað í fjórðu grein laganna um söluna. Þar er farið yfir hvað Bankasýslunni er ætlað að gera og svo segir: „Þegar tilboð í eignarhluti liggja fyrir skal Bankasýsla ríkisins skila ráðherra rökstuddu mati á þeim. Ráðherra tekur ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað og undirritar samninga fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhlutans.“ Hér er alveg skýrt að það er ráðherra sem tekur ákvörðun um tilboðin, samþykkir þau eða hafnar. Ráðherrann getur ekki falið sig á bak við Bankasýsluna eða miðlara úti í bæ. Ráðherra ber alla ábyrgð.

Samkvæmt viðtölum við fjármálaráðherrann um málið er engu líkara en að hann hafi sagt við Bankasýsluna: „Klárið verkið drengir, ég vil ekkert vita.“

Ráðamenn hafa sagt að umgjörðin um bankasöluna hafi ekki haldið og því þurfi að breyta henni og byrja á að leggja niður Bankasýsluna.

Mér finnst augljóst að fjármálaráðherra hafi ekki haldið sér innan umgjarðarinnar sem lögbundin er og að á því þurfi hann að axla ábyrgð.

Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar

Nýjar fréttir