3.4 C
Selfoss

Velkomin í Árborg

Sigurjón Vídalín Guðmundsson
Sigurjón Vídalín Guðmundsson

Þrátt fyrir mikla fólksfjölgun og hraða uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Árborg undanfarin ár eru litlar vísbendingar um að eftirspurnin sé að minnka nema síður sé.

Þessi mikla fjölgun hefur reynt mjög á alla innviði sveitarfélagsins en unnið hefur verið markvisst að því að styrkja og efla alla uppbyggingu sem nauðsynleg er til þess að taka á móti öllum þeim sem vilja flytja í Árborg.

Vissulega hafa ófyrirsjáanlegir hlutir eins og heimsfaraldur, með tilheyrandi fjarveru starfsfólks og röskunar á afhendingu vöru og þjónustu, sett strik í reikninginn en með þrautseigju og dugnaði hefur tekist að klára þau verkefni sem legið hafa fyrir. Sama má segja um fyrirsjáanlega erfiðleika, í stað þess að láta hugfallast, þá er litið á þá sem verkefni sem þarf að leysa.

Verkefnin eru til þess að leysa þau

Þrátt fyrir að margvíslegir vaxtaverkir fylgi jafn fordæmalausri uppbyggingu og við höfum orðið vitni að er hún jafnframt gleðileg. Hún er gleðileg að því leyti að allir þeir fjölmörgu íbúar sem starfa við byggingaiðnað hafa nóg að gera, fyrirtæki í byggingaiðnaði eða fyrirtæki sem þjónusta hann blómstra, samfélagið fær meiri mannauð, íþróttafélögin verða öflugri, atvinnulífið verður fjölbreyttara, menntastofnanir styrkjast ásamt lista- og menningarlífi svo einhver dæmi séu tekinn.

Samfylkingin hefur skýra framtíðarsýn og reynslumikið fólk til að leiða áframhaldandi vöxt Árborgar. Við höfum sýnt það í okkar störfum undanfarið kjörtímabil að við erum lausnamiðuð og höfum leitast við að byggja upp til framtíðar svo styrkja megi innviði sveitarfélagsins varanlega. Við höfum ávallt haft að leiðarljósi hagsmuni almennings í sveitarfélaginu umfram sérhagsmuni fárra. Það mun ekki breytast. Öflugt mannlíf, fjölbreyttur mannauður og sterkt atvinnulíf er styrkur hvers samfélags og þess vegna segjum við í Samfylkingunni, velkomin í Árborg, verkefnin eru til þess að leysa þau.

Setjum X við S þann 14. maí nk.

Sigurjón Vídalín Guðmundsson,
skipar 2. sæti á S-lista Samfylkingarinnar í Árborg.

 

Nýjar fréttir