2.3 C
Selfoss

Sviðin jörð fráfarandi meirihluta

Mikið uppbyggingarstarf framundan

Bæjarstjórnarkosningar fara fram í Árborg n.k. laugardag og mikilvægt er að mæta á kjörstað, nýta atkvæði sitt og kjósa betri stjórn yfir sveitarfélagið Árborg. Fráfarandi bæjarstjórn ásamt bæjarstjóra, skilur eftir sig „sviðna jörð“ ef svo má að orði komast þar sem aðeins lítill hluti þess málefnasamnings sem nýr meirihluti gerði með sér árið 2018 hefur verið efndur.  Það er ekki það versta heldur sú alvarlega fjárhagsstaða bæjarsjóðs sem ný bæjarstjórn þarf að takast á við.  Það verður ekki öfundsvert hlutverk.  Árborg er með lélegust útkomu allra sveitarfélaga á Íslandi þegar ársreikningur 2021 er skoðaður og nokkrar kennitölur úr honum bornar saman.  Tap á rekstri A hluta nam 2,1 milljarði á síðasta ári og er uppsafnað rekstrartap á þessu kjörtímabili komið í 3,3 milljarða króna. Þvílíkur árangur eða hitt þó heldur. Skuldastaðan Árborgar er komin yfir 21 milljarð og er um 2 milljónir á hver íbúa.

Bæjarsjóður getur ekki lengur fjármagnað sig í gegnum Lánasjóð sveitarfélaga og þarf þess í stað að leita á markaðinn eftir fjármagni þar sem vextir og ávöxtunarkrafa fara ört hækkandi. Þetta er í raun „sviðin jörð“ eftir aðeins 4ja ára samstarf Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar, Miðflokksins og Áfram Árborg sem mynduðu meirihluta eftir síðustu bæjarstjórnarkosningar. Og hverju er um að kenna; fyrst og fremst kunnáttuleysi á sviði fjárhagsáætlana, fjármálastjórnar sem og áætlanagerðar vegna framkvæmda. Ekki þýðir fyrir fráfarandi meirihluta og bæjarstjóra að skýla sér á bak við Covid því tekjuaukning á tímabilinu nemur um 50% en útgjaldaaugkning 70%. Og hverjir eru ábyrgir? Það eru þeir sem stjórna bæjarfélaginu, þ.m.t. bæjarstjóri, form. bæjarráðs og forseti bæjarstjórnar. Í venjulegu fyrirtæki væri löngu búið að segja þessu fólki upp störfum og ráða aðra og það er í raun það sem kjósendur þurfa að gera þann 14. maí n.k.

Með því að merkja X við D stuðlar þú ágæti kjósandi að því að tryggja meirihluta D-listans sem stjórnaði Árborg á árunum 2010-2018 þar sem aðald var í rekstri sem skilaði mjög viðunandi niðurstöðu bæjarstjóðs, einkum síðustu árin en á fyrri hluta kjörtímabilsins var verið að glíma við eftirhrunsárin með viðeigandi afleiðingum.

Nái D-listinn meirihluta verður gerð alsherjar úttekt á fjámálum sveitarfélagsins og ráðist í mjög mikla og nauðsynlega fjárhagslega endurskipulagningu og kostnaðaraðhald, án þess að skerða lögbundna þjónustu. Sum verkefni fráfarandi meirihluta skilja eftir sig fjárfrekar framkvæmdir eins og viðgerð á míglekri íþróttahöll og lokafrágangi á Stekkjaskóla sem hefði átt að taka í notkun haustið 2021. Einnig eru veitumálin á miklum ólestri þar sem komið hefur fram hjá fagaðilum að heitavatnsskortur blasi við á næstu misserum verði ekkert að gert. Þar þarf t.d. að klára samninga um borun fyrir heitu vatni í nágrenni Selfoss og búið var að undirbúa í tíð fyrrverandi meirihluta D-listans en síðan hefur ekkert verið gert meira í því máli. Einnig þarf að setja „ventla“ á þann gengdarlausa útgjaldaleka sem átt hefur sér stað og koma í veg fyrir spillingu á borð við slétt skipti á landareignum eins og gerðist s.l. haust þegar skiptin á Dísarstaðalandi og Hesthúsalandi fóru fram þó svo að munur á matsvirði landareignanna væri 130 milljónir. Þetta eru aðeins örfá dæmi um fyrstu verk nýs bæjarstjóra ef D-listinn nær meirihluta eftir kosningar.  Einnig skal því beint til yngri og efnaminni kjósenda að fasteignagjöld, sem hækkað hafa um 50% á núverandi kjörtímabili og eru þau hæstu á landinu, mun EKKI lækka ef núverandi meirihluti verður áfram við stjórnvölinn.  Réttum fjárhag bæjarsjóðs við og tryggjum það með því að mæta á kjörstað á laugardag og kjósa D-listann og leggjum þannig grunninn að Árborg okkar allra þar sem þú skiptir máli.

Sigurður K. Kolbeinsson,
Viðskiptafræðingur og íbúi á Selfossi

Nýjar fréttir