0.3 C
Selfoss

Mexíkóskt fisksalat

Vinsælast

Jónheiðður Ísleifsdóttir er Sunnlenski matgæðingurinn að þessu sinni.

Ég þakka Guðfinnu kærlega fyrir áskorunina. Ég hef alltaf haft gaman að því að búa til mat og finnst fátt betra en að koma heim eftir vinnudaginn og fá að bauka aðeins í eldhúsinu.

Fyrst það er komið sumar þá ákvað ég að deila með ykkur tveimur sumarlegum uppskriftum sem eru i miklu uppáhaldi. Sú fyrri heitir Mexíkóskt fisksalat í uppskriftabókinni minni og er ceviche réttur með hvítum fiski sem maríneraður er í sítrónusafa og hin er einfaldasta og besta skyrkaka í heimi. Njótið vel!

Mexíkóskt fisksalat

Fiskurinn:

600 gr Ný smálúðu- eða ýsuflök
1 msk    Sjávarsalt
1 msk    Sykur
Safi úr tveimur sítrónum

Flökin eru skorin í litla ferningar ca. 2×2 cm. Fiskurinn er síðan settur í ílát (helst með loki) og sítrónusafa, salti og sykri stráð yfir. Fiskurinn liggur í þessum legi í sólarhring í kæli. Gott er að hræra öðru hvoru í blöndunni svo allur fiskurinn marinerist.

Salatið:

6-8 Tómatar
2 Grænar eða rauðar paprikkur
1-2 Rauðlaukar (sneiddur)
4 msk Ólífuolía
2 msk Hvítvínsedik
1/2 tsk Oreganó
4-5 dr. Tabaskó sósa
2 msk Söxuð steinselja

Allt grænmetið er skorið í bita og blandað saman í fallega skál, kryddað og olíunni og edikinu bætt út í og blandað vel saman við allt. Lögurinn er síaður af fisknum og fiskinum er bætt út í salatið.

Skreytið með steinselju og berið fram með snyttubrauði eða góðu grófu brauði og smjöri. Algjört lostæti!

Besta skyrkakan

1 stór dós Hreint skyr (ósætt)
1/2 l. Rjómi
1 pk Lu kex (Kanil eða Kanil og möndlu)
100 gr Smjör
500 gr Jarðaber, bláber og hindber

Byrjið á því að finna fram eldfastmót eða flata skál. Merjið svo kexið þannig að það séu einhverjir stærri bitar eftir. Það er gott að setja það bara í poka og nota kökukeflið :). Bræðið svo smörið og blandið saman við mulda kexið. Hellið þessu í botnin á mótinu. Ég þrýsti kexinu aldrei niður því mér finnst gott að hafa botninn pínu lausan í sér.

Létt þeytið svo rjómann og hrærið upp skyrið og blandið því varlega út í rjómann þangað til allt hefur blandast saman. Það er svo magnað að þó að þessi blanda sé algerlega ósæt þá virkar hún fullkomlega með kexinu og berjunum. Hellið rjómaskyrblöndunni svo varlega út á kexið og leyfið þessu að stífna í ísskáp í nokkrar tíma ef tími er til. Berin eru svo skoluð og þeim dreyft yfir kökuna. Ég sker alltaf jarðaberin í tvennt eða fernt en hef bláber og hindber heil. Gott er að berin þeki kökuna alveg. Og þá er bara að njóta, í sólinni, á pallinum eða svölunum með kaffibolla og vinkonu á kantinum.

Ég skora á Sigríði Hafsteinsdóttur vinkonu mína úr leikhúsinu að vera matgæðingur næstu viku. Ég veit að hún lumar á einhverju gómsætu.

Random Image

Nýjar fréttir