1.1 C
Selfoss

Góðgerðarbingó í minningu Óskars

Óskar hefði orðið fertugur þann 11.maí nk.

Ágústa Sverrisdóttir og Óskar Gústaf Ingjaldur Ólafsson byrjuðu að rugla saman reitum á vormánuðum árið 2013. Þrátt fyrir að hafa unnið næturvaktir sitthvora vikuna gekk dæmið upp og árið 2014 voru þau búin að kaupa sér stórt hús á Eyrarbakka með vonir um að raða í það börnum. Sá draumur byrjaði svo að verða að veruleika árið 2017 þegar sonur þeirra, Gísli Þór, kom í heiminn.

Það var svo fyrir tilviljun að Óskar fór í almenna læknisskoðun í byrjun desember árið 2020 þar sem kom í ljós að eitthvað var að. „Hann fór í blóðprufu og þar kom hann allt, allt of lágur út í blóði og járni og allskonar“ segir Ágústa, en í kjölfarið fór Óskar í ristilspeglun og þann 7.desember 2020 fengu þau að vita að hann hafði greinst með ristilkrabbamein sem hafði dreift sér í lifrina.

Óskar byrjaði í geislameðferð strax í janúar og fór reglulega í lyfjagjafir. Í lok júní var svo stór partur af lifrinni skorinn í burtu. „Það var síðan í lok ágúst sem hann fékk blóðtappa í bæði lungun, ég kom bara að honum inni á baðherbergisgólfi þar sem hann var meðvitundarlaus, en það munaði mjög litlu á að hann færi þennan dag“. Hann þurfti í kjölfarið að fara í þræðingu þar sem þrætt var upp frá náranum og blóðtapparnir sóttir handvirkt í lungun.

Nokkur góð ár

Um það bil mánuði seinna, í september, þegar Óskar átti að fara i aðra aðgerð þar sem átti að skera burt meinið úr ristlinum og setja upp stóma, að ný meinvörp fundust nálægt nýrunum. Eitt þeirra var svo nálægt slagæð að læknarnir treystu sér ekki til að skera, áhættan í þeirri aðgerð yrði töluvert meiri en ávinningurinn sem hún gæti haft, meinið væri nú þegar byrjað að dreyfa sér um allan likamann. Svo það var á þessum tímapunkti sem þau fengu að vita að meinið væri ólæknandi, en að margir gætu lifað með svona mein í „nokkur góð ár.“ að sögn lækna.

Ágústa dásamar æðruleysi Óskars og segist ekki skilja hvernig hann hafi alltaf getað tekið öllum slæmu fréttunum með sínu einstaka viðhorfi „Hann var bara alltaf svo raunsær, standandi frammi fyrir þessu. Ég get auðvitað ekki sett mig í þessi spor, en ég lærði helling af honum.“

Litla fjölskyldan á Gamlárskvöld 2021

Svo gerðist það stuttu eftir að Óskar, Ágústa og Gísli Þór komu heim eftir að hafa eytt jólunum á Suðureyri í faðmi fjölskyldu Óskars, að hann vaknaði að morgni 7.janúar 2022, alveg tilfinningalaus í fótunum. Þá kom í ljós að meinið væri að þrýsta á mænuna sem olli því að hann hafði engan mátt fyrir neðan mitti. Í kjölfarið fór Óskar í bráðaaðgerð til að létta þrýstingi af mænunni og virtist hún skila árangri fyrst um sinn.

Heimsfaraldurinn gerði illt verra

Hann fór svo á Grensás í endurhæfingu og í lok janúar var hann farinn að fá þokkalega hreyfigetu í fæturna. Fljótlega var þó ákveðið að setja endurhæfinguna á bið vegna þess hve kvalinn Óskar var og flutti hann þaðan yfir á krabbameinsdeildina í Reykjavík þar sem hann gat fengið almennilega verkjastillingu. Það versta við það var þó að Ágústa og Gísli Þór máttu ekki heimsækja Óskar vegna heimsfaraldursins sem var í hæstu hæðum á þessum tíma og það leið næstum heill mánuður þar sem þau fjölskyldan gátu ekki fengið að hittast, sem reyndi eins og gefur að skilja mjög mikið á þau öll.

Óskar og Ágústa voru dugleg að eiga myndsímtöl á meðan þau gátu ekki hittst.

Framfarirnar fóru svo skyndilega að ganga til baka og á fundi með krabbameinslækni Óskars þann 6.febrúar fá þau að heyra að hann eigi mjög stutt eftir, kannski nokkrar vikur. Meinið hafði dreift sér um allt, meðal annars í brjóstholið, höfuðkúpuna og víða um hrygginn, en stuttu áður höfðu þau hjónin verið að ræða undirbúning fyrir heimkomu Óskars af spítalanum með tilliti til hjólastólaaðgengis. „En þarna bara fékk ég að vita það að hann væri aldrei að fara að koma heim af sjúkrahúsinu.“

Starfsfólk lyflækningadeildar HSu á sérstakar þakkir skilið

Óskar var síðan fluttur á lyflækningadeild á Selfossi þann 8.febrúar og þá máttu mæðginin heimsækja hann strax. Síðustu vikum sínum eyddi Óskar í faðmi fjölskyldu og frábæra starfsfólksins á lyflækningadeild HSu sem gerði allt hvað það gat til að gera líðan hans bærilega. Það var svo mánudaginn 28.febrúar 2022 að Óskar, ásamt stórum hluta sjúklinga á lyflækningadeildinni greindist með Covid-19 sem varð að lokum til þess að hann tapaði þessum ósanngjarna slag og lést þann 4.mars síðastliðinn.

Þann 11.maí nk. hefði Óskar orðið fertugur og ætlar Ágústa að standa fyrir góðgerðarbingói í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka í tilefni dagsins sem er öllum opið. „Ég var búin að kvíða svolítið fyrir þessum degi, mig langar að láta gott af mér leiða og ég varð fyrir innblæstri frá vinkonu minni sem býr á skaganum og var að gera akkúrat svona bingó til að styrkja krabbameinsfélagið þar og ég hugsaði með mér að ég þyrfti ekkert að finna upp hjólið. Ég fann bara að þetta væri það sem mig langaði til að gera á afmælisdeginum hans Óskars. Ég dembdi mér bara í þetta og fór á fullt að senda tölvupósta og hef fengið ótrúlega góð viðbrögð“

Mikilvægt að fólk viti af ómetanlegu starfi Krabbameinsfélags Árnessýslu

Krabbameinsfélag Árnessýslu hefur reynst Ágústu ómetanlegt og kemur allur ágóði af bingóinu til með að renna óskiptur til þess. „Mér finnst svo mikilvægt að fólk á öllum aldri viti af þeim, viti að það sé hægt að koma þarna frá 11-15 á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum í opið hús. Maður getur alltaf farið og spjallað, þetta er svolítið eins og að fara í heimsókn til vina, þarna er fólk bara að spjalla um allt milli himins og jarðar, tala um sína reynslu og allskonar, ekkert endilega krabbameins tengt. Þetta er svo gott félagslega fyrir fólk sem er kannski veikt eða aðstandendur þeirra. Þau hafa reynst mér rosalega vel, bæði eftir að Óskar var kominn hingað á Selfoss og svo eftir missinn.“

Krabbameinsfélag Árnessýslu var stofnað 29.maí 1971. Félagið heldur úti stuðningshópum fyrir einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra. Hópanir, Brosið og Smárarnir byggja á jafningjastuðningi þar sem öllum er tekið opnum örmum og þeim mætt þar sem þeir eru staddir.

Smárarnir er einkum ætlaður fyrir karla. Megin áhersla hópsins er jafningjastuðningur, fræðsla og afþreying fyrir karla sem greinst hafa með krabbamein, eru í krabbameinsferli eða hafa lokið ferlinu. Karlmenn sem eru aðstandendur eru einnig velkomnir í Smárana.

Að lokum vill Ágústa koma á framfæri sérstökum þökkum til starfsfólks á lyflækningadeild HSu og vill hún þakka þeim fjölmörgu fyrirtækjum og einstaklingum sem ætla að leggja góðgerðarbingóinu lið.

Nýjar fréttir