1.7 C
Selfoss

Samkomulag um garðyrkjunám og jarðeignir á Reykjum í Ölfusi

Vinsælast

Í samkomulagi sem mennta- og barnamálaráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kynntu í ríkisstjórn í morgun er rekstur starfsmenntanáms í garðyrkju og skyldum greinum tryggður. Þar með getur Fjölbrautaskóli Suðurlands boðið öllu starfsfólki Landbúnaðarháskóla Íslands sem hefur sinnt kennslu og tengdum störfum á Reykjum ráðningu frá 1. ágúst 2022.

Ráðuneytin tvö ásamt fjármála- og efnahagsráðuneytinu hafa einnig ákveðið að umsýsla Reykjatorfunnar og mannvirkja fyrrum Garðyrkjuskólans á Reykjum í Ölfusi flytjist frá Landbúnaðarháskóla Íslands til Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna við upphaf haustannar 2022. Það er forsenda þess að hægt sé að nýta svæðið á nýjum vettvangi undir námið.

Skipaður verður starfshópur undir forystu mennta- og barnamálaráðuneytisins um framtíðarfyrirkomulag og nýtingu á Reykjum og eflingu starfsnáms, rannsókna og nýsköpunarstarfs. Í þeirri vinnu verður jafnframt skoðað hvernig tryggja megi tengingu námsins við atvinnulífið og ákveðið sjálfstæði gagnvart Fjölbrautaskólanum. Fyrirhuguð uppbygging á Reykjum mun efla starfsnámið og skapa brú inn á nám á háskólastigi. Óskað verður eftir fulltrúum frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Fjölbrautaskóla Suðurlands, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og Bændasamtökum Íslands auk fulltrúa frá báðum ráðuneytum. Gert er ráð fyrir að tillögur starfshópsins liggi fyrir í desember 2022.

Innritun í starfsnám í garðyrkju og skyldum greinum endurspeglar mikinn áhuga á náminu og hafa 108 þegar innritað sig. Það er mikið ánægjuefni þar sem garðyrkjunám þjónar stóru hlutverki í framtíð Íslands og baráttunni við loftslagsbreytingar. Jafnvægi í sambýli fólks og náttúru, sjálfbær matvælaframleiðsla samhliða aukinni tæknivæðingu er þar leiðarstef.

Nýjar fréttir