14.5 C
Selfoss

Verðugur fulltrúi Sunnlendinga á Ólympíuleikum æskunnar

Vinsælast

Um 2000 þáttakendur á aldrinum 14-18 ára, frá 47 Evrópulöndum tóku þátt í níu íþróttagreinum á Ólympíuleikum æskunnar, (EYOF 2022) sem haldnir voru í Vuokatti í Finnlandi frá 20.-25. mars sl. Meðal annars var keppt var á snjóbretti, skíðaskotfimi, íshokkíi, skíðastökki og á listskautum.

Einar Ágúst Ásmundsson var einn keppenda, en hann keppti á snjóbretti. Einar er 18 ára, fæddur árið 2004 og hefur búið á Selfossi síðan árið 2019. Hann er fæddur og uppalinn á Siglufirði en bjó um tíma í Noregi, þar sem hann tók stóru skrefin í snjóbrettaiðkuninni. „Ég hef bara rosalega gaman að því að vera á snjóbretti og er bara á snjóbretti eins mikið og ég get. Ég er til dæmis að fara núna í október til Austurríkis að keppa.“

Einar æfir mikið í Bláfjöllum, „annars erum við bara úti um allt, á Akureyri og svo erum við mikið bara uppi í fjöllum sjálfir, löbbum bara upp á fjöll og æfum, stundum erum við bara á götunni, á handriðum og allskonar,“ segir Einar og hlær. Þegar lítið er um snjó, reynir Einar að safna pening og koma sér til útlanda til að æfa eða bara þvælast hvert sem hann kemst til að finna snjó, en Einar og félagar hans úr sportinu nota jöklana mikið til æfinga á sumrin.
Undirbúningurinn fyrir Ólympíuleika æskunnar fóru að miklu leyti fram í á Akureyri, en Einar hefur verið að ná sér eftir ökklabrot svo hann gat ekki æft jafn mikið og hann hefði kosið, hann æfði þó eins oft og hann gat og er að sögn mikið í ræktinni og passar vel upp á heilsuna.

Löng leið til Finnlands

Ferðalagið út var engin skotferð en Einar ferðaðist frá Íslandi til Danmerkur, þaðan til Noregs, frá Noregi til Finnlands, tók svo innanlandsflug í Finnlandi og keyrði að lokum í tvo og hálfan tíma til Voukatti.
Þrátt fyrir að hafa verið að jafna sig eftir fyrrgreint ökklabrot, landaði Einar tólfta sætinu í sínum flokki, en það voru fjórir strákar að keppa á snjóbretti fyrir íslands hönd og Einar var sá eini sem fór fyrir hönd Suðurlands.

Einar hefur að sögn mikinn áhuga á að hvetja yngri kynslóðina til að fylgja sínum draumum, sem hann hefur bersýnilega gert sjálfur. Aðspurður um hvað hann myndi segja við sjálfan sig fyrir fimm árum segir þessi staðfasti ungi maður: „Ég ætla, get og skal.“
Það er nokkuð ljóst að framtíðin er björt og að unga kynslóðin okkar getur tekið sér þennan flotta íþróttamann til fyrirmyndar.

Einar Ágúst og félagar á Ólympýuleikum æskunnar
Einar Ágúst og félagar á Ólympýuleikum æskunnar

Nýjar fréttir