0 C
Selfoss

Takmarkalaus listsköpun

Vinsælast

Við kíktum í heimsókn til Jóhönnu Írisar Hjaltadóttur.

Jóhanna er hæfileikabúnt sem hefur óbilandi áhuga á öllu er við kemur málun, föndri og hannyrðum. Jóhanna er úr Eyjafirðinum en ástin dró hana á Selfoss þar sem hún hefur búið í um fimm ár ásamt eiginmanni sínum, Landeyingnum, Herði Ársæli Sigmundssyni og eiga þau saman tveggja ára orkuboltann Daníel Þór.

Jóhanna ákvað í lok mars að búa til svokallaða „like“ síðu á Facebook, þar sem hún deilir myndum af því sem hún hefur tekið sér fyrir hendur, en hún hefur skreytt herbergið hjá Daníel litla með öllum uppáhalds teiknimyndafígúrunum hans, Daníel til mikillar ánægju.

Draumurinn er að prófa að gera eitt eða tvö herbergi hérna á Selfossi

„Mér finnst þetta ótrúlega skemmtilegt, ég get illa unnið dagvinnu vegna stoðkerfisvandamála eftir bílslys, svo er ég í greiningarferli en ég er sennilega komin með vefjagigt líka.
Þegar ég mála þarf ég ekki að vera bundin við að sitja, standa eða vera kyrr. Ég teikna gjarnan fígúrurnar upp á A3 eða stærra blað, ákveð stellingar og stærðir, festi blöðin á vegginn til að fá tilfinningu fyrir því hvernig uppsetningin ætti að vera. Ég get alveg gert helling heima líka, ég þarf ekki að vera alveg á staðnum allan tímann en ég er ekki að nota skjávarpa eða neitt svoleiðis.“

Jóhanna stundar nám í garðyrkjuframleiðslu en vegna fyrrgreindra líkamlegra kvilla sér hún ekki fram á að geta unnið mikið við annað en ráðgjöf í þeim geira á næstunni.

Hún segist eiga það til að detta í öll verkefni sem tengjast því að mála, enda er hún tíður gestur á nytjamörköðum þar sem hún kaupir sætar styttur og smáhluti og gefur þeim nýtt líf með því að mála þá upp á nýtt. Ekki nóg með að mála, heldur heklar hún líka og prjónar og er að sögn alveg friðlaus ef hún hefur ekki alltaf eitthvað að gera, brasa eða búa til.

Hugmyndaflug á við fimmtán manns

Það yrði seint sagt að Jóhanna myndi deyja ráðalaus, en fjölmargt á heimili hennar hefur hún steypt eða leirað sjálf, þar á meðal er fallegur ísbjörn sem hún leiraði sem þjónar því hlutverki að halda niðri stöng sem opnar fyrir útblástur úr arninum á heimilinu. Jólaþorpið úr Costco keypti hún fyrir nokkrum árum: „Ég er búin að horfa á það lengi, mér fannst bara, æi fólkið [í jólaþorpinu úr Costco] var bara ljótt,“ segir Jóhanna og hlær. En hún tók sig til, tók allt í sundur, glerin úr húsunum og málaði allt upp á nýtt.

Síðustu ár hefur Jóhanna tekið það að sér að lappa upp á hina og þessa hluti frá vinum og fjölskyldu, hún málar á steina, gefur gömlum garðálfum yfirhalningu og hefur verslað sér allskyns krúttlegar verur af Ali-Express sem hún gefur nýtt líf við komuna til landsins.

Jóhönnu líkar einkar vel hér á Selfossi og segir bæinn mun hlýlegri stað en Akureyri, þar sem hún bjó áður. Hún er í góðu sambandi við flesta nágranna sína og á tímabili hitti hún nokkrar nágrannakonur á morgnana til að föndra með þeim.
Jóhanna á augljóslega framtíðina fyrir sér í þessum bransa og það er aldrei að vita nema við kíkjum aftur í heimsókn til hennar og sjáum hverju hún hefur safnað í sarpinn.

Hér má sjá brot af því sem Jóhanna hefur tekið sér fyrir hendur:

Nýjar fréttir