-3.5 C
Selfoss

Tom Kha Gai – kjúklingasúpa

Vinsælast

Hrafnhildur Karlsdóttir er sunnlenski matgæðingur vikunnar.

Það er mér mikil ánægja að fá að vera Matgæðingur vikunnar og þakka Katrínu fyrir áskorunina.  Ég kynni hér til leiks Tom Kha Gai súpu sem mér og mínu fólki þykir alltaf jafn góð og er gjarnan á matseðilnum í afmælisveislum, skírnarveislum eða bara til að gleðja bragðlaukana og njóta á góðum degi. Það eru til margar útgáfur af súpunni og ef þið viljið bæta fleiru í hana þá er bara að fara á netið og skoða.

Tom Kha Gai – kjúklingasúpa

1 grillkjúklingur  – ágætur þessi sem er hægt að grípa tilbúinn í Nettó, bara passa að taka skinnið af.

2 matsk. hnetuolía eða önnur góð olía.

1 matsk. sítrónugras /sítrónumelissa söxuð. Það er ekki alltaf hægt að finna sítrónumelissu hjá fersku kryddjurtunum í búðunum. Þá raspa ég smá sítrónubörk út í súpuna og kreisti ca hálfa sítrónu út í, það er ekkert síðra.

3 tesk. engifer, vel saxað.

2 hvítlauksrif, söxuð.

3 græn chili, smátt söxuð.

1  tesk. turmerik.

800 ml. (2 dósir) kókosmjólk, ekki nota fituskerta.

3 bollar (750ml.) kjúklingasoð – skiptir máli að nota gott soð.

¾  bolli vatn – alls ekki meira!

1 matsk. fiskisósa, t.d. frá Blue Dragon.

Grænn hluti púrru fínt saxaður og settur út súpuna ca 15 mín. áður en hún er borin fram.

Byrjum á að hita olíu í súpupottinum, bara vægan hita – og steikja saman sítrónugras (eða raspaðan börk af tæplega hálfri sítrónu), engifer, hvítlauk, chili og turmerik í ca 2-3 mínútur. Síðan er kjúklingasoðið og kókosmjólkin sett ípottinn ásamt vatninu og fiskisósunni. Ef notuð er sítróna í stað sítrónumelissu er þá kreistir maður á þessu stigi safa úr ½ sítrónu út í súpuna. Kjúklingurinn er hlutaður niður og síðan er kjötið skorið í hæfilega bita og sett út í súpuna. Pössum að vera búin að taka skinnið af kjúklingnum því kryddið á honum getur verið sterkt og truflað ekta góða Tom Kha Gai bragðið. Nú er suðan látin koma upp, en pössum að súpan sjóði ekki. Gott er að súpan bíði í amk. 15 mínútur áður en hún er borin fram og munum eftir að drussa púrrunni yfir súpuna í lokin. Mér finnst súpan enn betri ef hún fær að bíða í pottinum í amk. 30 mín. áður en hún er borðuð svo að bragðið nái að taka sig vel. Súpan er líka mjög góð upphituð daginn eftir.

Prófið ykkur endilega áfram með chili, engifer, stítrónugras/sítrónu og hvítlauk, sumir vilja sterka súpu sem rífur í en aðrir vilja hafa hana mildari.

Gott er að hafa brauð eða hrökkbrauð með súpunni, í veislum höfum við gjarnan alls kyns brauð, pestó og saltað eða kryddað smjör með.

Verði ykkur að góðu.

Ég skora á Sirrý systur mína, Sigríði Karlsdóttur, að birta einhverja góða uppskrift í næsta blaði. Hún er ein fárra sem ég þekki sem er með matreiðslubækur á náttborðinu og les uppskriftir sér til ánægju og yndis. Hún er meistarakokkur og mun áreiðanlega koma með uppskrift að spennandi krásum í næstu viku.

Random Image

Nýjar fréttir