8.9 C
Selfoss

Hamar velur blakmenn ársins

Vinsælast

Á aðalfundi blakdeildar Hamars voru veitt verðlaun fyrir blakmenn ársins. Það voru þjálfararnir sem sáu um að velja hver leikmaður hlaut þann heiður.

Í barnaflokki var Halldóra Þráinsdóttir valin blakmaður ársins. Halldóra stundar blak af miklum krafti, mætir alltaf á æfingar og er jákvæð, metnaðargjörn og dugleg. Hún hefur tekið miklum framförum og er komin með virkilega góða tækni, gott fingurslag, góða vörn og er hörku smassari. Halldóra stefnir langt í blakinu og markmiðið hennar er að komast í landsliðið. Með áframhaldandi ástundun í blakinu mun þessi draumur örugglega rætast í framtíðinni.

Marey Sól Birgisdóttir Meyer var valin blakmaður ársins í unglingaflokki. Marey Sól mætir  fimm sinnum í viku á æfingar og æfir bæði með unglingunum og fullorðnum. Hún er dugleg að leiðbeina hinum liðsfélögum sínum í unglingaflokki  og er einnig mikilvægur leikmaður í A liði kvenna. Það eru Hafsteinn og Kristján Valdimarssyni sem þjálfa hana með unglingunum en Radoslaw Rybak þjálfar hana með A liði kvenna.

Haraldur var kosinn Blakmaður árins 2021 í flokki áhugamanna en hann spilar aðallega með 1 deild karla en hefur einnig spilað með úrvalsdeildinni. Haraldur mætir á alla æfingar og alla leikir og sýnir óhemju metnað og þrautseigju. Radoslaw þjálfari  fór miklum loforðum um hversu mikilvæg leikmenn eins og Halli eru.

Ragnar Ingi Axelsson var kosin leikmaður úrvalsdeildar 2021 í Hamri. Að sögn Radoslaw sýnir hann ávallt mikil tilþrifi á vellinum, leggur sig 100 % fram, er sá leikmaður sem er alltaf hvetjandi og jákvæður og gefst aldrei upp. Ragnar er frábær liðsfélagi og var valinn leikmaður tímabilsins af BLÍ núna fyrir stuttu sem og leikmaður íþróttafélag Hamars.

Blakdeildin óskar þessum flottu leikmönnum innilega til hamingju með verðskuldaðan árangur.

 -Fréttatilkynning frá Blakdeild Hamars

Marey Sól Birgisdóttir er blakmaður ársins í unglingaflokki.
Halldora Þráinsdóttir er blakmaður ársins í barnaflokki.

Nýjar fréttir