4.9 C
Selfoss

Ég hlakka til samtalsins á komandi vikum

Vegna fjölda áskorana hef ég ákveðið að bjóða mig fram í 3. sæti á lista Framsóknar og framfarasinna í Ölfusi fyrir komandi sveitarstjórnakosningar.

Ég hef starfað sem framkvæmdastjóri í 3 sveitarfélögum, þar á meðal sem bæjarstjóri Ölfuss árin 2013-2018. Hef einnig reynslu af bankastörfum og var í tvö ár hjá Reykjavíkurborg sem verkefnastjóri húsnæðismála og öðlaðist þar mikilvæga reynslu á sviði sveitarstjórnamála, ekki síst sem snýr að húsnæðismálum lágtekjufólks og eldri borgara. Við fjölskyldan höfum búið í 4 sveitarfélögum á Suðurlandi auk þess að vera búsett í Árósum í Danmörku í 4 ár. Það eru mikil verðmæti í því að búa á mismunandi stöðum, að upplifa ólík samfélög og öðlast með því reynslu og ákveðna víðsýni ekki bara tengda sveitarstjórnarmálum.  Ég hef komið að og leitt stór verkefni í Ölfusi sem snerta alla málaflokka en hér má nefna endurbætur og uppbyggingu Þorlákshafnar, samninga og samskipti við Smyril Line vegna starfsemi þeirra í Þorlákshöfn, samninga við Lýsi hf. um lokun fiskþurrkunarverksmiðju við Unubakka og uppbyggingu nýrrar verksmiðju á Víkursandi, Þorláksskóga, samninga við Laxa fiskeldi um uppbyggingu seyðaeldisstöðvar í Þorlákshöfn, samskipti við forsvarmenn Landeldis um uppbyggingu í Þorlákshöfn, samninga og samskipti við Hveragerðisbæ um uppbyggingu leik- og grunnskólamannvirkja í Hveragerði með þátttöku Ölfuss o.m.fl.

Í dag starfa ég sem skrifstofustjóri stéttarfélagsins Sameykis, stærsta stéttarfélgs opinberra starfsmanna á Íslandi og held utanum daglegan rekstur þess. Ég hef mikinn áhuga á íþróttum og sit í stjórn meistaraflokksráðs sameiginlegs kvennaliðs Hamars – Þórs í körfubolta. Í mínum huga er það gríðarlega mikilvægt að efla íþróttir og félagsstarf í heimabyggð svo við fáum þátttöku sem flestra og höldum unga fólkinu okkar heima.

Kæri kjósandi í Ölfusi, ég stend fyrir vönduð vinnubrögð, einlægni, traust og heiðarleika. Mér þykir vænt um samfélagið okkar, hér eigum við fjölskyldan heimili og hér hafa dætur mínar alist upp síðustu 9 árin. Að mínu mati eru óþrjótandi tækifæri í Ölfusi, hér er mikið og fallegt landsvæði gjöfult af orku og vatni, auk þess sem höfnin opnar hlið heimsins að Ölfusi. Nú þarf að setja allan kraft í að fjölga atvinnutækifærum á svæðinu, horfa til ábyrgrar uppbyggingar á atvinnustarfsemi og hlúa að mannauði sveitarfélagsins og innviðum. Um leið og ég óska eftir þínum stuðningi, hlakka ég til samtalsins á komandi vikum og mun vinna af heilindum fyrir þig.

Gunnsteinn R. Ómarsson, 3. sæti á lista XB Framfarasinna í Ölfusi

Nýjar fréttir