1.1 C
Selfoss

Aldursvænn Hveragerðisbær

Vinsælast

Öflug og virk þjónusta við eldri borgara er einn af mörgum lykilþáttum í velsæld Hveragerðisbæjar. Við í Okkar Hveragerði teljum aðgengilegt, aðlaðandi og hentugt samfélag fyrir eldri borgara lykilinn að aldursvænum bæ. Í slíkum bæ er öllum gert kleift að taka virkan þátt í samfélaginu og þar er komið fram við alla af virðingu, óháð aldri. Virkni er forsenda farsællar öldrunar þar sem góð tengsl við samfélagið og samskipti styðja við góða heilsu og virkni.

Umhverfi og aðgengi

Umhverfi utandyra sem og opinberar byggingar hafa mikil áhrif á lífsgæði eldri borgara. Mikilvægt er að huga að ýmsum þáttum í því tilliti svo sem að tryggja sléttar og hreinar gangstéttir og að þær séu teknar niður við gatnamót og gangbrautir, aðstöðu til að sitja og hvílast og að byggingar þar sem aldraðir sækja sér þjónustu séu heppilega staðsettar og aðgengi gott. Okkar Hveragerði vill stuðla að því að þessum þáttum sé fylgt fast eftir svo að eldri borgurum séu allar leiðir greiðar. Við viljum jafnframt tryggja að eldri borgarar hafi greiðan aðgang að upplýsingum um þá þjónustu sem er í boði á svæðinu hvað varðar stuðningsþjónustu, félags- og tómstundastarf og ýmis samfélagsmál.

Húsnæðismál

Við í Okkar Hveragerði teljum mikilvægt að til staðar sé húsnæðisöryggi fyrir eldri borgara í Hveragerði og að í boði séu fjölbreytt búsetuúrræði þar sem þeir hafi kost á sjálfstæðri búsetu í íbúðakjörnum með góðri stuðningsþjónustu ásamt nægu framboði af dvalar- og hjúkrunarrýmum. Við teljum ríka þörf á því að sveitarfélagið beiti sér fyrir því að dvalar- og hjúkrunarrýmum í Hveragerði verði fjölgað til að mæta aukinni þörf á því sviði, en það liggur fyrir að þeirri þörf verður ekki mætt að fullu með fyrirhugaðri fjölgun slíkra rýma í væntanlegri nýbyggingu dvalar- og hjúkrunarheimilisins Áss.

Tækifæri til þátttöku og heildræn þjónusta

Félagsleg þátttaka er undirstaða góðrar geðheilsu og þátttaka í tómstundastarfi af ýmsu tagi gerir öldruðum kleift að rækta tengsl við aðra og viðhalda færni af ýmsu tagi. Mikilvægt er að veita öldruðum rík tækifæri til að taka virkan þátt í samfélaginu svo sem með áframhaldandi atvinnumöguleikum og tækifærum til sjálfboðastarfs, menntunar og stjórnmálaþátttöku. Það er jafnframt mikilvægt að veita góðan stuðning við félags- og tómstundastarf aldraðra sem og aðgang að dagdvalarrýmum til að rjúfa félagslega einangrun og sinna almennum stuðningsþörfum sem og að stuðla að bættri geðheilsu. Við í Okkar Hveragerði teljum þörf á að fjölga dagdvalarrýmum í Hveragerði og leggjum ríka áherslu á að í Hveragerði sé haldið úti góðu stuðningsneti sem heldur utan um eldri borgara með stuðningsþarfir þar sem félagsþjónusta, heilsugæsla og dvalar- og hjúkrunarþjónusta vinna náið saman til að veita heildræna og samstillta þjónustu.

Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir, Sigríður Hauksdóttir og Eygló Huld Jóhannesdóttir, sem skipa 3. 6. og 9. sæti á lista Okkar Hveragerðis

Nýjar fréttir