6.1 C
Selfoss

Að halda úti eðlilegu skólastarfi við óeðlilegar aðstæður

Vinsælast

Arna Ír Gunnarsdóttir.

Í þau rúmu tvö ár sem áhrifa heimsfaraldurs hefur gætt í samfélaginu með tilheyrandi samkomutakmörkunum hafa yfirvöld lagt ríka áherslu á að sem minnst röskun yrði á skólastarfi í landinu. Skólinn er eitt af okkar mikilvægustu jöfnunartækjum og daglegt skólastarf gríðarlega mikilvægt fyrir öll börn. Námið sjálft er börnunum að sjálfsögðu mikilvægt en ekki síður sú félagslega virkni, aðhald og dagleg rútína sem fylgir skólagöngunni.

Að prjóna ný mynstur daglega

Undanfarin tvö ár hafa verið stórkostleg áskorun fyrir helsta framlínustarfsfólk sveitarfélaganna, starfsfólkið okkar í leik- og grunnskólum. Dag hvern hafa stjórnendur skólanna staðið frammi fyrir flóknum úrlausnarefnum til þess að ná að halda daglegu skólastarfi gangandi. Stjórnendur og starfsfólk í skólunum er orðið að sérfræðingum í að prjóna ný mynstur og að hugsa út fyrir kassann í þeirri viðleitni að halda uppi sem eðlilegustu skólastarfi við algerlega óeðlilegar aðstæður. Að vinna dag eftir dag, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð út frá fáliðunaráætlunum, þar sem enginn tími er fyrir neitt annað en að halda skútunni á floti er gríðarlega krefjandi.

Skólarnir stóðu frammi fyrir fjölmörgum nýjum verkefnum þar sem ekki var mögulegt að styðjast við fyrri reynslu til þess að leysa. Skólastjórnendur voru meira að segja farnir að sinna daglega almannavarnarverkefnum eins og smitrakningu. Þetta hefur auðvitað haft þau áhrif að lítill tími hefur verið aflögu til að sinna faglegri forystu, stuðningi við starfsfólk eða annarri faglegri þróunarvinnu sem er nauðsynlegur þáttur í nútíma skólastarfi.

Þakkir til starfsfólks

Það er í raun algerlega aðdáunarvert hversu vel skólastarfið hefur gengið þrátt fyrir allt. Það er gæfa okkar að starfsfólk skólanna hefur sýnt æðruleysi og unnið af röggsemi til að bregðast við síbreytilegum veruleika. Starfsfólk hefur kappkostað að halda úti eins mikilli þjónustu og mögulegt hefur verið, oft við mikla óvissu um eigið öryggi. Ég vil sem foreldri og bæjarfulltrúi færa öllu starfsfólki í leik- og grunnskólum í Svf. Árborg miklar þakkir fyrir  þeirra ómetanlega framlag við að standa í framlínunni í heimsfaraldrinum og halda skólastarfinu gangandi.

Nú er það verkefni sveitarfélagsins að leggja áherslu á að hlúa að og huga að líðan starfsfólks grunn- og leikskóla eftir þennan flókna og erfiða tíma. Það þarf að styðja við starfsfólkið með margvíslegum hætti eins og t.d. með viðeigandi fræðslu- og námskeiðishaldi sem tekur mið af því sem á undan er gengið. Það þarf að halda þétt utan um starfsmenn, því sveitarfélög reka ekki skóla án öflugs starfsfólks.

Þakkir til foreldra

Að sjálfsögðu hefur þessi covid tími verið erfiður fyrir foreldra leik- og grunnskólabarna þar sem hin mikilvæga daglega rútína hefur oft og tíðum riðlast algerlega. Margir foreldrar hafa misst mikið úr vinnu og reynt hefur verulega  á heimilin. Mig langar líka að nota þetta tækifæri og þakka foreldrum fyrir skilning og þolinmæði þegar grípa hefur til þess úrræðis að fella niður skólahald eða loka deildum í ástandinu.

Við erum öll reynslunni ríkari eftir þessa fordæmalausu tíma. Vonandi mun sú reynsla nýtast okkur til góðs þó svo að við viljum ekki upplifa viðlíka tíma aftur.

 

Arna Ír Gunnarsdóttir,
formaður fræðslunefndar og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Svf. Árborg.

Nýjar fréttir