10 C
Selfoss

Bankinn Vinnustofa býður Sunnlendinga velkomna til vinnu

Vinsælast

Bankinn vinnustofa, stórglæsilegur nýr vinnustaður á Selfossi, opnar formlega næsta fimmtudag með tilheyrandi opnunarteiti.
Til stendur að bjóða áhugasömum upp á frían prufumánuð út apríl, en eftir apríl stendur fólki til boða að leigja aðstöðu hjá Bankanum vinnustofu í 12 mánuði í senn, fyrir 30.000 kr. á mánuði.

Bankinn er frábærlega staðsettur að Austurvegi 22, miðsvæðis á Selfossi. Hann er í göngu- eða hjólafæri fyrir alla Selfyssinga og að auki eru næg bílastaæði við Austurveg, Bankaveg og á lóð Bankans, sunnan við húsið. Bankinn er steinsnar frá veitingastöðum, verslunum og annarri þjónustu miðbæjarins, og í næsta húsi er World Class og Sundhöll Selfoss.
Landsbankahúsið, sem reist var fyrir tæpum 70 árum í ný-endurreisnarstíl, hefur löngum verið talið eitt fallegasta hús á Suðurlandi. Útibú Landsbankans mun áfram verða á jarðhæð og í kjallara hússins en vinnustofan er á tveimur efri hæðunum á samtals um 500 fermetrum.

Húsnæði Bankans vinnustofu hefur algjörlega verið tekið í gegn til þess að skapa frábæra vinnuaðstöðu, góða hljóðvist og birtu, fjölbreytt aðlaðandi rými og fyrsta flokks tæknibúnað. Þar eru opin skrifstofurými og smærri skrifstofur, tveggja til tólf manna fullbúin fundarherbergi, fjarfundaklefar, setustofur, bar ofl. Sjón er sögu ríkari. Í Bankanum vinnustofu er byggt á því að fólk með góða menntun og mörg atvinnutækifæri sækist eftir fallegu og nútímalegu vinnuumhverfi; góðu aðgengi að nýrri tækni og áhugaverðum félagsskap. Tæknilega er hægt að vinna mörg störf að heiman með fjarbúnaði, en fyrir flesta er gríðarlega mikilvægt að vera innan um aðra, að vera hluti af daglegu vinnusamfélagi sem á landsbyggðinni fæst einmitt með því að leiða fólk úr ólíkum greinum saman á fallegum stærri vinnustað.

Störf óháð staðsetningu

Bankinn vinnustofa varð til í samstarfi Sigtúns Þróunarfélags, Ríkisins, Sveitarfélagsins og Samtaka atvinnulífsins. Tilgangur samstarfsins er að skapa á Selfossi vinnusamfélag sem eykur atvinnutækifæri og nýsköpun á svæðinu, byggir upp þekkingarklasa og dregur úr umferð og mengun. Vinnustofan er hluti af átaksverkefni stjórnvalda sem miðar að því að fólk búsett á landsbyggðinni hafi fullan aðgang að störfum á Höfuðborgarsvæðinu. Allir eru velkomnir til þáttöku í Bankanum vinnustofu. Hún hentar mjög vel fyrir þá Sunnlendinga sem vinna á höfuðborgarsvæðinu, hjá opinberum aðilum, jafnt sem einkafyrirtækjum, og gætu hugsað sér að stunda hluta vinnu sinnar hér á Selfossi. En Bankinn er einnig frábær lausn fyrir þá sem vinna sjálfstætt eða hjá litlum fyrirtækjum, og hafa hag af því að deila skrifstofurými með öðrum.

Heimasíða Bankans vinnustofu fer í loftið á fimmtudag en fram að því geta áhugasamir sent póst á info@bankinnvinnustofa.is.

 

Nýjar fréttir