10 C
Selfoss

Ein stærsta skógræktarráðstefna sögunnar

Vinsælast

Skógræktarfólk og skógvísindafólk er greinilega farið að þyrsta í að koma saman, miðla þekkingu sinni og fá að vita allt það nýjasta í heimi íslenskrar skógræktar. Það sést á því að mjög góð þátttaka verður í fagráðstefnu skógræktar sem hefst í dag á Hótel Geysi í Haukadal. Hátt í 150 manns eru skráð á ráðstefnuna sem stendur í tvo daga undir yfirskriftinni Skógrækt 2030 – Ábyrg græn framtíð.

Fyrri daginn verða umræður með pallborðum, fyrst um skógræktarstefnu fram til 2030 þar sem Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi í Reykjavík, verða meðal þátttakenda. Því næst verður rætt um kolefnisbindingu, ný markmið, nýja aðila og vottun þar sem Guðmundur Sigbergsson hjá International Carbon Registry og Björgvin Stefán Pétursson frá YGG-Carbon sitja m.a. í pallborði. Loks verður fjallað um viðarafurðir til framtíðar, þar sem Bergþóra Góa Kvaran fjallar um umhverfismerkið Svaninn og þann möguleika að nota vottað íslenskt timbur í byggingar.

Seinni daginn verða fjölbreytt erindi um ýmis mál sem snerta skóga, skógrækt, skógvernd og skyld efni. Varpað verður m.a. fram spá um útbreiðslu skóga næstu áratugi þar sem t.d. er gert ráð fyrir mjög aukinni útbreiðslu birkiskóga. Fjallað verður um mikilvægi jarðvegsörvera fyrir framfarir í skógrækt, kosti mismunandi íslenskra birkikvæma, spurt hvort hægt sé að rækta skóg á Mosfellsheiði og hvað sé í veginum, fjallað um náttúrlega óvini meindýra á trjám og einnig um verkefnið TreProX – aukin viðargæði í skógrækt og úrvinnslu skógarafurða.

Þetta eru aðeins fáein dæmi en nánari upplýsingar og dagskrá er að finna á síðu ráðstefnunnar, www.skogur.is/fagradstefna2022.

Nánari upplýsingar gefa:
Pétur Halldórsson, petur@skogur.is
Edda S. Oddsdóttir, edda@skogur.is

Fréttatilkynning frá skógræktinni

Laugarvatnsskógur Mynd: skogur.is/Esther Ösp Gunnarsdóttir
Laugarvatnsskógur Mynd: skogur.is/Esther Ösp Gunnarsdóttir

 

 

 

Nýjar fréttir