2.3 C
Selfoss

Velferðarþjónustan í Árborg okkar allra

Helga Lind Pálsdóttir.

Góð velferðarþjónusta getur skipt sköpum fyrir lífsgæði ungra sem aldinna. Velferðarkerfið og sú velferðarþjónusta sem sveitarfélögum ber að veita eru gríðarlega yfirgripsmikil og líklega víðtækari en margir gera sér grein fyrir. Til velferðarkerfis telst til að mynda öll sú þjónusta sem ætluð er til að skapa íbúum örugg lífsskilyrði, bæta lífskjör, stuðla að forvörnum og varðveita mannréttindi. Hlutverk sveitarfélaga í að standa að velferðarþjónustu er ærið. Sveitarfélögum ber að veita öfluga félagsþjónustu, barnavernd og þjónustu við fatlaða og aldraða. Þá ber sveitarfélögum að standa að rekstri grunnskóla og leikskóla, og flest ef ekki öll sveitarfélög styðja við starf dagforeldra. Sveitarfélög reka í flestum tilfellum frístundastarf og styrkja íþrótta- og æskulýðsstarf ásamt því að huga að ýmsu lýðheilsustarfi. Allt þetta má telja til heildstæðs velferðarkerfis, enda leggur þessi þjónusta grunninn að velferð einstaklingsins í samfélaginu.

Með tilkomu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sem komu til framkvæmdar á árinu 2021 jukust verkefni velferðarþjónustunnar töluvert. Farsældarlögin eru mjög yfirgripsmikil og ein mesta lagabreyting og framþróun sem orðið hefur í þjónustu við börn og fjölskyldur sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda. Með lögunum er unnið markvisst að snemmtækri íhlutun þar sem kveðið er á um samstarf á milli menntastofnana, heilbrigðiskerfisins og félagsþjónustu auk lögreglu og íþrótta- og æskulýðsstarfs þegar við á. 

Farsældarlögin hafa þegar kallað á aukið framlag starfsmanna á ýmsum sviðum innan þjónustustofnana sveitarfélagsins. Það er því ljóst að með innleiðingu laganna kemur til útgjaldaaukningar hjá sveitarfélaginu hér í Árborg. Mikilvægt er þó að líta til þess að með þeim starfsaðferðum sem lögin kveða á um munu börn verða fyrir færri áföllum á uppvaxtarárunum og seigla þeirra mun aukast til framtíðar. Ávinningurinn mun þannig koma fram með tímanum og sparnaðurinn til langtíma mun vega meira en núverandi og komandi útgjaldaaukning. 

Verkefni velferðarþjónustunnar munu á komandi tímum áfram vega þungt í þjónustu sveitarfélagsins. Auk þeirrar velferðarþjónustu sem nú þegar er veitt og áframhaldandi innleiðingar farsældarlaganna verðum við að takast á við afleiðingar heimsfaraldurs Covid sem hefur stýrt samfélaginu í tvö ár. Faraldurinn hefur meðal annars haft alvarleg áhrif á andlega heilsu margra og félagsleg einangrun hefur aukist. Það er sameiginleg ábyrgð okkar sem velferðarsamfélags að setja geðheilsumálin og geðrækt í forgang. Við þurfum að standa saman í að byggja upp og endurreisa mannleg tengsl og félagsleg samskipti eftir langvarandi takmarkanir á því sem við teljum eðlilegt líf og við þurfum að halda áfram að veita þeim sérstakan stuðning sem þurfa á honum að halda. 

Velferðarmál eru einn stærsti útgjaldaliður sveitarfélagsins. Það er nauðsynlegt að huga vel að því hvernig fjármunum í velferðarmálunum er best varið og hvernig nýta má fjármagnið sem við höfum í málaflokkinn sem best. Ég er menntaður félagsráðgjafi og hef starfað í velferðarþjónustu á velferðarsviði sveitarfélaga og hjá frjálsum félagasamtökum í tíu ár og sem stjórnandi í velferðarþjónustu í um átta ár. Ég tel mikilvægt að þau sem sitja í bæjarstjórn hafi skilning á verkefnum velferðarþjónustunnar og geti veitt starfsfólki velferðarþjónustunnar stuðning við að takast á við núverandi verkefni, ný verkefni og verkefni framtíðarinnar. Þess vegna býð ég mig fram í 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins þann 19. mars næstkomandi. Ég mun standa vörð um og hlúa að velferðarþjónustunni þannig að Sveitarfélagið Árborg geti veitt góða og fjölbreytta þjónustu í takt við þarfir íbúa og óska eftir stuðningi þínum til þess að geta látið gott af mér leiða. 

Helga Lind Pálsdóttir
Frambjóðandi í 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Sveitarfélaginu Árborg

Nýjar fréttir