6 C
Selfoss

Áfram Árborg!

Álfheiður Eymarsdóttir, varabæjarfulltrúi Áfram Árborgar og varaformaður eigna- og veitunefndar.
Álfheiður Eymarsdóttir, varabæjarfulltrúi Áfram Árborgar og varaformaður eigna- og veitunefndar.

Bæjarmálafélagið Áfram Árborg býður nú fram í annað sinn í sveitarstjórnarkosningunum sem eru framundan. Við stofnuðum félagið 2018 og vorum stolt af því að ná inn manni í bæjarstjórn. Við höfum lagt okkur fram um að vera til fyrirmyndar í störfum okkar í nefndum sveitarfélagsins, vinna með öllum, tala við alla og ná sáttum ef svo ber undir.

Við viljum framfarir og umbætur, vönduð vinnubrögð, aukið íbúalýðræði, aukið sjálfstæði hverfaráða, sérstaklega Eyrarbakka, Stokkseyri og Tjarnabyggð þar sem margir íbúa upplifa sig sem 2. flokks íbúa. Við stöndum fyrir opna stjórnsýslu og velferð allra. Framtíðarsýn okkar er nútímalegt og fallegt sveitarfélag sem skarar fram úr í menntamálum og nýsköpun með fjölbreyttum atvinnutækifærum. Við viljum vel rekið sveitarfélag sem er eftirsóknarvert að búa í og veitir góða þjónustu fyrir alla íbúa og fyrirtæki. Að við séum vel í stakk búin til að taka á móti nýjum íbúum og þjónusta þá með sóma.

 Það hefur margt gott gerst á kjörtímabilinu en auðvitað margt sem betur mátti fara. Covid setti strik í reikninginn og við þurfum að einbeita okkur núna að stuðningi við unga fólkið sem félagsleg einangrun og rysjótt skólahald hefur leikið grátt, stuðningi við eldra fólkið sem hefur búið við einangrun og þurft að fara sérstaklega varlega og aðra viðkvæma hópa.
Ég vil nota tækifærið og þakka starfsfólki sveitarfélagsins fyrir að gera allt sem í þess valdi stóð til að halda uppi reglulegri og góðri þjónustu í faraldrinum.

Það sem vakti mesta furðu okkar þegar við hófum þátttöku í bæjarstjórn og nefndum á vegum þess, var hversu persónuleg átök og illindi milli manna tók mikið pláss í starfinu, Við lítum á setu í bæjarstjórn og nefndum á vegum sveitarfélagsins sem þjónustu við íbúa en ekki vettvang til að níða skóinn hver af öðrum.
Til að þetta breytist verður að eiga sér stað eðlileg endurnýjun. Við verðum að kjósa inn fólk sem vill gegna skyldum sínum við bæjarbúa af virðingu, vandvirkni og af framsýni. Yfirskrift samnings núverandi meirihluta  var að efla áhrif ungs fólks. Það hefur lítið gerst í því. Þetta er mikilvægt mál og ég vil hvetja ungt fólk til að taka þátt í prófkjörum, gefa kost á sér til framboðs og taka virkan þátt í stjórnmálum.

Oddviti Áfram Árborgar 2018 var Sigurjón Vídalín Guðmundsson. Hann hefur nú sagt sig úr Áfram Árborg og Viðreisn og gengið til liðs við Samfylkinguna. Við þökkum honum störfin fyrir okkar hönd og óskum honum góðs gengis á nýjum vettvangi.
Ef þú hefur brennandi áhuga á sveitarfélaginu sem þú býrð í og þjónustu þess þá hvetjum við þig að hafa samband við okkur í Áfram Árborg og taka þátt með okkur. Við erum samsafn flokksbundins fólks, óflokksbundins, óháðra og allskyns umbótasinna.
Hafðu samband við undirritaða á netfangið alfa@this.is. 

Álfheiður Eymarsdóttir,
Varabæjarfulltrúi Áfram Árborgar og varaformaður eigna- og veitunefndar.

Nýjar fréttir