11.7 C
Selfoss

Látum verkin tala

Vinsælast

Í dag þegar líðandi kjörtímabil er að klárast þykir okkur fulltrúum B-lista í Rangárþingi eystra rétt að líta um öxl og gera upp tímabilið sem senn er að líða. Framboð framsóknarmanna og annarra framfarasinna í Rangárþingi eystra hefur setið í meirihluta sveitarstjórnar í farsælu samstarfi við D-listann s.l. 4 ár og hafa framboðin m.a. skipt stöðu sveitarstjóra á milli sín á tímabilinu.

Kjörtímabilið sem er að klárast hefur vægast sagt verið óvenjulegt og lítið hefur verið um stærri viðburði í sveitarfélaginu. Við frambjóðendur og kjörnir fulltrúar höfum saknað þess mikið að geta hitt fólk á förnum vegi, á fundum og viðburðum og höfum við fundið fyrir því hvað félagsleg samskipti skipta gríðarlega miklu máli fyrir okkur öll. Auk þess hefur, eins og allir vita, heimsfaraldurinn haft veruleg áhrif á ákvarðanir, forgangsröðun og rekstur sveitarfélagsins. Ábyrg fjármálastjórnun undanfarin ár sannaði svo sannarlega gildi sitt þegar við þurftum að takast á við áhrif heimsfaraldursins. Lögð var áhersla á viðhaldsverkefni og að skapa störf í héraði eins og ríkisstjórn Íslands lagði til.

Þrátt fyrir áskoranir í rekstri er full ástæða til að gleðjast yfir því að við höfum haldið vel á spöðunum og náð fjölmörgum þeirra markmiða sem við settum okkur fyrir kosningar 2018 og finnst okkur full ástæða til að varpa ljósi á það sem gerst hefur og við getum verið stolt af:

 • Vinnu við heildar deiliskipulag fyrir skóla- og íþróttasvæðið er lokið þar sem framtíðarþarfir sveitarfélagsins eru hafðar að leiðarljósi og þegar er farið að vinna eftir.
 • Heildarendurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins er langt komin.
 • Vinnu við miðbæjarskipulag er lokið og gatnagerð þar er á fjárhagsáætlun ársins 2022. Lóðir þar verða auglýstar til úthlutunar á næstu vikum.
 • Markaðssetningarherferð  Rangárþings eystra, þar sem sveitarfélagið er markaðssett sem framsækið og eftirsóknarverður staður til búsetu, er hafin og mun halda áfram.
 • Vinnu við deiluskipulag nýs íbúðahverfis er lokið, gatnagerð við 1. áfanga er orðin að veruleika og vinna við 2. áfanga er að hefjast.
 • Gerð húsnæðisáætlunar Rangárþings eystra er nú lokið.
 • Lögð hefur verið áhersla á uppbyggingu og viðhald ferðamannastaða samkvæmt áfangastaðaáætlun og hafa ekki fengist jafn háir styrkir til þeirra framkvæmda árum saman.
 • Garðyrkjustjóri var ráðinn til starfa í júní 2020 og hefur sveitarfélagið fengið sannkallaða andlitslyftingu sem við viljum halda ótrauð áfram.
 • Bygging nýs leikskóla er hafin og er áætlað að verkinu ljúki um mitt ár 2023, en um er að ræða stærstu einstöku framkvæmd Rangárþings eystra fram til þessa.
 • Leikskólavist fyrir öll börn frá því að fæðingarorlofi foreldra lýkur er nú staðreynd.
 • Verkefninu barnvænt samfélag var hrint af stað vorið 2021 og gengur innleiðingin mjög vel.
 • Heimavist við FSU er orðin að veruleika og er mikilvægur áfangi fyrir unga fólkið okkar, ekki síst í dreifbýlinu.
 • Vinnu við umferðaröryggisáætlun sveitarfélagsins er að ljúka.
 • Rangárþing eystra er orðið heilsueflandi sveitarfélag og gengur sveitarfélagið fram með góðu fordæmi og gefur starfsfólki sínu árskort í líkamsrækt og sundlaug.
 • VISS vinnu- og hæfingarstöð var opnuð á Hvolsvelli í janúar 2021 og nýtur mikilla vinsælda.
 • Framtíðarheimili Njálurefilsins er fundið.

Hér er svo sannarlega ekki um tæmandi upptalningu að ræða enda krefjast ný verkefni þess oft að brugðist sé fljótt og örugglega við.  Við höfum ávallt lagt fram metnaðarfulla stefnuskrá sem hefur verið okkur leiðarljós allt kjörtímabilið. Við leggjum allt kapp á þétta og góða samvinnu frá fyrsta degi og hafa allir fulltrúar listans fundað mánaðarlega allt kjörtímabilið sem gefur okkur aukinn slagkraft til að vera ávallt með puttann á púlsinum. Við munum nú opna fundi okkar fyrir öllum þeim sem vilja leggja sitt af mörkum til að móta stefnu til næstu fjögurra ára með okkur og mun listi framsóknar og annarra framfarasinna bjóða áfram fram krafta sína á næsta kjörtímabili fáum við til þess traust og umboð kjósenda í Rangárþingi eystra.

Fulltrúar B-lista framsóknarmanna og annarra framfarasinna í Rangárþingi eystra,
Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri og oddviti listans.
Rafn Bergsson, formaður byggðarráðs.
Guri Hilstad Ólason, sveitarstjórnarfulltrúi.
Bjarki Oddsson, 1. varamaður.

Nýjar fréttir