2.8 C
Selfoss

Lestur þarf að fljóta í samfellu

Aldís Hafsteinsdóttir.
Aldís Hafsteinsdóttir.

Aldís Hafsteinsdóttir er lestrarhestur vikunnar.

Aldís Hafsteinsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1964 en alin upp í Hveragerði frá tveggja ára aldri og býr þar enn. Hún gegnir stöðu bæjarstjóra þar og þykir farsæl í starfi enda haldið þeirri stöðu frá árinu 2006. Aldís er stúdent frá MA og stundaði nám í Noregi og Danmörku í alþjóðastjórnmálum og kerfisfræði og síðar nám í viðskiptafræðum við Háskólann á Akureyri. Hún er gift Lárusi Inga Friðfinnssyni og eiga þau fjögur börn. 

Að þessu sinni ákvað LESTRARHESTURINN að brjóta upp hið hefðbundna form spurninga og svara og láta eintalið ráða.

Fólki fannst ég lesa of mikið

Þegar ég var lítil fannst fólki ég lesa of mikið. Mér var í raun bannað að lesa bækur nema í hæfilegu magni. Á skólabókasafni Hveragerðisbæjar sem þá rúmaðist í tveimur bókavögnum á stigaskörinni í barnaskólanum mátti maður einungis fá fimm bækur á viku. Alls ekki meira! Á almenningsbókasafni Hvergerðinga sem þá var í bílskúr sem síðar hýsti fundarherbergi bæjarstjórnar við Hverahlíð mátti maður líka bara fá fimm bækur á viku. Fyrir lítinn lestrarhest sem vissi ekkert skemmtilegra en að sökkva sér í ævintýraheim bókanna var þetta allt of lítið. En það þýddi ekkert að mögla. Svona voru reglurnar. 

Engin persónuvernd í bókasöfnum bernsku minnar

Bókasöfn á þeim tíma voru dásamleg þó rýmið væri ekki stórt. Inni í hverri bók var miði þar sem fyrri lesendur höfðu kvittað fyrir lánið.  Ég lærði mjög fljótt hverjir höfðu sama bókasmekk og ég. Ef ákveðnir aðilar voru búnir að lesa bókina samkvæmt miðanum þá var hún ábyggilega góð og hægt að nýta bókakvótann án þess að taka þá áhættu að bókin reyndist leiðinleg. Nýju persónuverndarlögin hafa alveg tekið fyrir að gagnlegar upplýsingar sem þessar geti lekið óumbeðið á milli lánþega bókasafna dagsins í dag. Kannski sem betur fer.  

Heilsufræði húsmæðra var fróðlegur lestur 

Ég fékk aldrei nóg af bókum á bókasöfnum bæjarins og því las ég meira og minna allt sem ég fann í hillum heimilisins. Margt af því sjálfsagt ekkert sérstaklega hollt ungum börnum. Ég las til dæmis mjög snemma allt sem ég fann um miðla og andleg málefni, ferðabækur Peter Freuchen voru stórkostlegar, Fall Rómaveldis og Nýja testamentið var lesið frá upphafi til enda svo fátt eitt sé talið. Heilsufræði húsmæðra sem lengi var víst kennd við Húsmæðraskólann á Laugarvatni varð að bráðnauðsynlegu uppflettiriti fyrir 12 ára aldur og ég get því miður ekki gleymt lýsingum á sulli, hringormi og kossageit sem ég sá fyrst í þeirri ágætu bók. Bókavörðurinn hefði sennilega leyft mér að fá fleiri bækur að láni um Frank og Jóa eða Nancy Drew ef hann hefði grunað að annars yrði ég sérfræðingur í fjölbreyttum verkefnum húsmæðra upp úr miðri síðustu öld.  

Bækur voru bestu gjafirnar 

Bækur bernsku minnar voru uppspretta ævintýra og skemmtunar. Afmælis- og jólagjafir voru oftar en ekki bækur. Ég safnaði bókum. Þar sem ég á afmæli á vetrarsólstöðum hefur ávallt verið stutt á milli gjafanna í mínu lífi. Frá foreldrum mínum fékk ég yfirleitt Gunnubók eftir Catherine Wooley í afmælisgjöf en bók úr ritsafni Stefáns Jónssonar í jólagjöf. Þetta einfaldaði þeim án efa lífið í nokkur ár og ég var svo glöð með bækurnar mínar. Ég á þessi ritsöfn enn á besta stað í bókahillunni. 

Þarf að vera fljót með bækur 

Í dag hefur bóklestur minn því miður vikið að miklu leyti fyrir lestri ýmis konar gagna sem tengjast vinnunni. Mér finnst það ekki góð þróun því ég veit fátt betra en lestur og ég les hratt ef bókin er góð. Ef ég er lengi að lesa bók þá finnst mér ég þurfa að byrja upp á nýtt til að ná samhenginu almennilega. Lestur þarf að fljóta í samfellu. Það hefur alltaf gert mér pínulítið erfitt fyrir því ég er gjörn á að lesa fram á rauða nótt og gleyma mér alveg.  

Sögulegar skáldsögur eru bestar

Í dag finnst mér afar gaman að sögulegum skáldsögum og ekki síst þeim sem fjalla um lífsbaráttu forfeðra okkar hér á okkar harðbýla landi. Fyrir nokkrum árum leiddust mér ævisögur ákaflega mikið. Núna finnast mér margar ævisögur bæði fróðlegar og skemmtilegar.  Þar minnist ég sérstaklega ævisagna Ragnars í Skaftafelli og sögu Elfríðar Pálsdóttur sem báðar lýsa heimi sem er horfinn og einstöku lífshlaupi alþýðufólks. Eyrún Ingadóttir skrifar góðar bækur og bókin um Konuna sem elskaði fossinn heillaði mig. Stórvirki Guðjóns Friðrikssonar um Einar Benediktsson athafnaskáld er einstakt ritverk og Vesturfarabækur Böðvars Guðmundssonar ættu að vera skyldulesning öllum Íslendingum.  

Góðir rithöfundar búa í Hveragerði

Hér í Hveragerði búa nú afar færir rithöfundar og ég reyni að fylgjast vel með því sem þeir eru að gera. Það er gaman að fylgjast með velgengni þessa hæfileikaríka fólks. Skegg Raspútíns eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur, sem tilnefnd var til Íslensku bókmenntaverðlaunanna er afar skemmtileg lesning ekki síst vegna þess að bókin gerist að hluta hér í Hveragerði.  Það gerir einnig bókin á Milli trjánna eftir Gyrði Elíasson sem hér bjó um tíma en sú bók hlaut bókmennaverðlaun Norðurlandaráðs. Núna er stórgóð bók Elísabetar Jökulsdóttur, Aprílsólarkuldi tilnefnd til þeirra sömu verðlauna en hún býr einnig hér í Hveragerði í hinni rótgrónu skálda og listamanna nýlendu Íslands.

Hillurnar eru fullar af bókum

Í dag liggur á náttborðinu skáldsagan Sigurverkið eftir Arnald Indriðason. Einmitt söguleg skáldsaga eins og þær gerast bestar. Svo bíða mín fleiri góðar í röðum í hillunum mínum. Því enn safna ég bókum – þær verða allar lesnar við gott tækifæri þegar hægt er að vaka fram á rauða nótt við yndislestur eins og hann gerist bestur og enginn kemur og segir að ég megi bara lesa fimm bækur á viku. Ég hlakka til þegar af því verður.  

Umsjón með Lestrarhesti hefur Jón Özur Snorrason.

Random Image

Nýjar fréttir