-0.6 C
Selfoss

Árborg okkar allra

Vinsælast

Það er gott að búa í Árborg, hér ólst ég upp og hér hef ég alið upp mín börn. Ég hef séð sveitarfélagið stækka, íþróttalífið eflast, atvinnulífið blómstra og skólasamfélagið styrkjast. Hér er nálægðin við náttúruna okkur dýrmæt og laðar að, plássfrek áhugamál blómstra hér í sveitafélaginu eins og golf, hestamennska, mótokross og flug svo fátt eitt sé nefnt.  

Ábyrgur rekstur 

Velferð íbúa skiptir mig miklu máli en ég tel að ábyrgur og skilvirkur rekstur sveitarfélagsins sé forsenda þess að það megi vaxa og dafna áfram. Skilvirkur rekstur er forsenda þess að sveitarfélag geti veitt þá grunnþjónustu sem íbúar þess hafa þörf fyrir um leið og leita þarf allra leiða til að stilla álögum og gjöldum á íbúa og fyrirtæki í hóf. 

Þegar kemur að því að styrkja tekjustofna sveitarfélagsins þurfum við að laða að okkur fjölbreytta atvinnustarfsemi og auka um leið atvinnumöguleika íbúa. Því er gríðarlega mikilvægt að innviðir sveitarfélagsins, heitt og kalt vatn ásamt fráveitumálum standi undir þeirri uppbyggingu.  

Árborg eftirsóknarverður staður til að búa á 

Sveitarfélag þarf að hafa skýra stefnu og framtíðarsýn til að það sé eftirsóknarverður staður til að búa á. Stjórnendur þurfa að sýna festu, hafa hugrekki og heiðarleika þegar kemur að ráðdeild í fjármálum. Við þurfum að geta tekið á málum og vegið og metið það sem er mikilvægast til framtíðar, forgangsröðun fjárfestinga sveitarfélagsins verður að vera fyrirsjáanleg.  

Vaxandi samfélag 

Í Árborg eru starfræktir fjölmargir leik- og grunnskólar af miklum metnaði. Hér höfum við Háskólasetur þá er framhaldsskólinn sömuleiðis metnaðarfullur en auk hinna hefðbundnu  stúdentsbrauta eru í boði íþróttaakademíur, fjölbreytt og öflugt verknám sem og hestabraut. Árborg á að vera leiðandi í skólamálum á öllum skólastigum. Að vera leiðandi krefst hugrekkis og skýrrar sýnar.  Það er því mikilvægt að vera bæði framsýn og hafa ákveðna stefnu þegar kemur að uppbyggingu og aðlögun grunnþjónustu í nýjum og vaxandi hverfum sem og þeim íbúakjörnum sem fyrir eru eins og á Eyrarbakka og Stokkseyri. Leikskólinn er dýrmæt grunnstoð fjölskyldufólks sem og allur grunnskólinn. Að tryggja góða leik- og grunnskóla skiptir sköpum þegar kemur að samkeppnishæfni sveitarfélaga.

Nýir tímar

Ég hef áhuga á að taka þátt í enn frekari uppbyggingu sveitarfélagsins Árborg það eru spennandi tímar framundan um leið og þeir eru krefjandi. Við lifum á tímum breytinga þar sem stafræn umbreyting, störf án staðsetningar og sjálfbærni skipta íbúa og sveitarfélagið máli. Þar á Árborg að vera í fremstu röð. Samtal við íbúa og fyrirtæki er mikilvægt því í sameiningu myndum við það samfélag sem sveitarfélagið er, því er mikilvægt að vera samstíga og vinna saman. Mín áherslumál eru ábyrgur rekstur, traustir innviðir og stafræn stjórnsýsla en stafræn umbreyting er að taka við af rafrænni stjórnsýslu. Ég vill leggja áherslu á störf án staðsetningar en þannig má efla svæðið og gera atvinnulífið fjölbreyttara. Ég vil vinna af festu í velferðarmálum, skólamálum, íþróttamálum, samgöngumálum og umhverfismálum auk þess sem ég tel mikilvægt að hlúa að málefnum okkar eldri og reyndari. 

Sjálf bý ég yfir víðtækri reynslu úr atvinnulífinu. Starfaði tæp 7 ár í Landsbankanum á Selfossi, síðast sem viðskiptastjóri  á fyrirtækjasviði. Áður vann ég á velferðarsviði í Ráðhúsi Árborgar  og sá um fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins. Í dag kenni ég námskeiðið Velferð í fjármálum við Fræðslunet Suðurlands ásamt því að sinna öðrum verkefnum tengdum kennslu.

Ég er gift Snorra Sigurðarsyni fasteignasala og saman eigum við þrjú börn tengdadóttur og eitt barnabarn. Ég hef tekið virkan þátt í sjálfboðavinnu á sviði íþrótta sem og annarra trúnaðarstarfa í samfélaginu. Ég hef lokið margvíslegri menntun meðal annars iðnmenntun, er vottaður fjármálaráðgjafi, Bsc í viðskiptafræði, kennsluréttindi á meistarastigi og með MBA gráðu frá Háskóla Íslands.

Ég óska eftir þínum stuðningi í 1. sætið 19. mars

Nú styttist í prófkjör Sjálfstæðisflokksins þar sem fjöldi frambærilegs fólks býður fram krafta sína. Fólk á öllum aldri jafnt konur sem karlar, reynsluboltar og nýgræðingar því vil ég hvetja alla til að taka þátt þann 19. mars næstkomandi og hafa þannig bein áhrif. 

Ég heiti Fjóla Kristinsdóttir og gef kost á mér í 1. sæti prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Árborg þann 19. mars 

Random Image

Nýjar fréttir