-0.5 C
Selfoss

Árborg er öflugt samfélag með mikil tækifæri

Vinsælast

Það eru forréttindi að vera hluti af góðu samfélagi og finnst mér í fullri hreinskilni að hér í Sveitarfélaginu Árborg upplifi maður slíkt. Hvort sem það er hjálpsemi nágranna, skóla- og frístundastarf barnanna eða þjónustulund í verslunum. þá eru allir sem hér búa að vilja gerðir til að aðstoða og það hefur sýnt sig enn betur á undanförnum tveimur árum meðan Covid-19 heimsfaraldurinn hefur gengið yfir.

Árborg er samfélag með mikinn félagsauð. Það sést best á því öfluga starfi sem er hjá fjölbreyttum félagasamtökum, kórum, skátum og fleirum þar sem margir einstaklingar eru tilbúnir að vinna óeigingjarnt starf. Þar verður m.a. til skipulagt starf fyrir alla aldurshópa, ný menning eða heilu mannvirkin rísa með gríðarlegri hjálp sjálfboðaliða. Þetta er ekki sjálfsagt en mikilvægir þættir sem skapa gott samfélag og það þekkir maður af eigin raun sem starfsmaður sveitarfélagsins, foreldri og sjálfboðaliði.

Það er því mikilvægt núna þegar samfélagið er að komast í fulla virkni aftur og ferðatakmarkanir falla niður að við gleymum ekki öllu því jákvæða sem síðastliðin ár hafa skilað og getur haft áhrif áfram. Hvort sem það er meiri samvera með fjölskyldunni, þakklæti fyrir auðlindir okkar á hér á landi eða aukin vöru- og þjónustukaup af íslenskum fyrirtækjum og þá sérstaklega minni fyrirtækjunum sem eru í okkar nærsamfélagi og skapa störf, menningu og verðmæti sem skila sér beint aftur til samfélagsins.

Í þessu samfélagi vil ég búa og starfa áfram, ala upp börnin mín og leggja mitt af mörkum til að gera það enn betra. Nýta fjármuni sveitarfélagsins á ábyrgan hátt með góðri forgangsröðun, skapa ný tækifæri til atvinnu og nýsköpunar og leggja fram skýra framtíðarsýn í öllum málaflokkum svo samfélagið gangi í takt.

Þess vegna býð ég mig fram í 1.sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Árborg laugardaginn 19. mars nk. Ég er tilbúin til að leiða öflugan og samstilltan hóp fólks með skýr markmið til góðra verka fyrir samfélagið. Ég hvet alla til að taka þátt í prófkjörinu og nýta lýðræðislegan rétt sinn til þess að velja fólkið sem verður hluti af Bæjarstjórn Árborgar næsta kjörtímabil.

Bragi Bjarnason

Frambjóðandi í 1.sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Sveitarfélaginu Árborg

Nýjar fréttir