5.6 C
Selfoss
Home Fréttir Óður til Árborgar

Óður til Árborgar

Óður til Árborgar
Tinn Björg Kristinsdóttir.

Hugvekja til allra þeirra sem láta sig hagsmuni barna sveitarfélagsins varða.

Í 2.gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir:

„.. Aðildarríki skulu virða og tryggja hverju barni innan lögsögu sinnar þau réttindi sem kveðið er á um í samningi þessum, án mismununar af nokkru tagi…“

Jafnframt segir í 3.gr Barnasáttmálans:

„.. Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.“

Með þetta tvennt í huga sem og umræðuna um skólamálin við ströndina, samdi ég litla sögu sem ég vona að veki fólk til umhugsunar:

—-

Fótatökin mynda skruðning í skeljasandinum. Skruðning sem sameinast tónum hafsins þegar öldurnar snerta landið – breiða úr sér – eins og silkimjúka lakið hennar ömmu sem hékk úti á snúru að vori og flögraði um í golunni.

Sjávargolan strýkur kinnar mínar og hleypir frísku lofti í huga og sál. Ég nýt þess að horfa á þetta stórkostlega náttúruverk á meðan ég geng í fjörunni. Stokkseyrarfjara. Þvílík gersemi. Sólin heldur við öxl mína og ég finn hjartað fyllast af þakklæti.

Við finnum stað þar sem skeljar og þari verða að kransi úr listasmiðju barna minna. Krabbar fá hótel og hótelstjórarnir hásæti þar sem kakómjólk og kleina er lúxusmáltíð dagsins.

Mikið er ég lánsöm að búa hérna. Mikið er ég lánsöm að geta alið upp börnin mín hér á þessum friðsæla stað í námunda við þetta ævintýraland sem fjaran er. Það leynist ýmislegt í hrauninu ef ímyndunaraflið fær að njóta sín.

Það er ekki bara fjaran sem ég er þakklát fyrir. Þorpið er lítið og friðsælt. Barnvænt í þeim skilningi að hér er lítil umferð og stutt í næsta hús. Hér er lítil og krúttleg sundlaug sem æ fleiri sækjast í – ekki bara þorpsbúar – heldur fjölskyldufólk búsett í Árborg sem er farið að meta kosti laugarinnar í enn meira mæli en áður. Hér er vatnið Löngudæl sem býður upp á Kajak-róður að sumri og skautaferðir að vetri. Hér eru gönguleiðir í orkumikilli víðáttunni! Krafturinn frá Knarrarósvita. Skóglendi hjá Kríunni þar sem hægt er að fara í lautaferðir og berjatínslu á haustin. Göngu- og hjólastígur yfir Hraunsárbrú og alla leiðina að Eyrarbakka.

Eyrarbakki. Sá dásemdar staður. Gömlu húsin leiða mann til fornra tíma og rómantíkin er allsráðandi. Mig dreymir um að eignast hús á Eyrarbakka einhvern tíman. Í þessum fallega, gamla stíl. Hvítar blúndugardínur, reitarskiptir viðargluggar. Nýtíndur blómvöndur úr garðinum á eldhúsborðinu. Ég keyri í gegnum þorpið oft í viku og tilfinningin er alltaf jafn notaleg. Tala nú ekki um þegar jörðin er hvít og húsin skreytt jólaljósum. Eyrbekkingar eru heppnir. Fjölskylduvænt þorp sem býður upp á marga möguleika.

Í báðum þorpunum eru verslanir – vel reknar með persónulega þjónustu. Þær hafa nýst manni vel þegar búðarferð á Selfoss kemst ekki fyrir í dagskipulaginu.

Selfoss. Sú kraftmikla byggð. Uppbyggingin sem hefur átt sér stað þar á undanförnum árum er aðdáunarverð. Mannlíf og menning. Fjölbreytt þjónusta fyrir íbúa sveitarfélagsins. Íþróttastarf í hæsta gæðaflokki. Algjörlega til fyrirmyndar. Börnin sem alast upp þar eru heppin í þeim skilningi að framboð á frístundastarfi er mikið og í göngufæri í flestum tilvikum. Ungir og gamlir hafa greiðan aðgang að heilsueflandi umhverfi; sundlaug, íþróttamannvirki og fjölbreyttar gönguleiðir. Hellisskógur. Þvílík paradís. Lyktin frá trjánum, krafturinn frá Ölufsá. Kanínur í felum.

Árborgarstrætó gerir enn fleirum kleift að geta sótt þjónustu á Selfoss. Hann gefur líka íbúum Selfoss möguleika á að ferðast til þorpanna við ströndina og njóta útivistarmöguleikanna sem þar eru í boði. Frítt. Takk. Þetta eru forréttindi.

(…….)

Ég tek í mynsturskreyttan hurðarhúninn og loka á eftir mér. Lít inn um eldhúsgluggann til að athuga hvort ég hafi ekki munað eftir að slökkva ljósið, staldra svo við og virði fyrir mér litla draumahúsið sem nú er mitt.

Ég fyllist sátt.

Sólin heldur við öxl mína og leiðir mig í átt að hjólinu sem kemur að góðum notum því fótatökin eru orðin heldur hæg. Golan strýkur mér á kinn á meðan ég hjóla um í þorpinu. Eyrarbakki. Þar sem friðsældin er mikil og umferðin lítil. Ég heyri barnahlátur ekki svo langt undan. Áhyggjulaus æskan á leið í skólann. Gangandi. Fjölskyldunum hefur aldeilis fjölgað frá því ég var ung móðir með börn á skólaaldri.

Ég held áfram að hjóla, tek mér pásu hjá hestunum og aftur á Hraunsárbrú – held áfram – legg hjólinu og fer í sund. Stokkseyri. Gamla þorpið mitt sem mér þykir svo vænt um. Sundlaugarvörðurinn réttir mér lítinn kaffibolla og ég á notalega stund í heitu vatninu. Úff, hjólreiðaferðin tók á. Það verður gott þegar sundlaugin sem nú er í byggingu á Eyrarbakka, verður tilbúin – aldrei að vita nema ég leyfi mér þá að labba í sund.

Ég sæki barnabarnið í skólann og við hjólum saman heim á Bakkann. Við ætlum í menningarferð á Selfoss þegar hún er búin á handboltaæfingu. Með Árborgarstrætó. Lífið er gott og ég er þakklát. Þakklát fyrir að tréin voru vökvuð þegar laufin voru byrjuð að fölna;

Þakklát sveitarfélaginu sem hlustaði á þorpsbúana þegar baráttan um skólamálin við ströndina stóð sem hæðst. Aðstaða til náms og íþróttakennslu er til fyrirmyndar í báðum þorpum.

Þakklát sveitarfélaginu fyrir að hafa Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í ákvarðanatöku og forgangsröðun verkefna svo öll börn njóti jafnréttis. Mismunum og vanræksla af hálfu sveitarfélagsins heyrir nú sögunni til.

Þakklát sveitarfélaginu fyrir að koma á samstarfi á meðal íþróttafélaga innan þess, svo öll börn fái fjölbreytt frístundaframboð í grend við heimili þeirra.

Þakklát fyrir að sveitarfélagið er Heilsueflandi samfélag sem hefur það að markmiði að stuðla að heilsueflandi umhverfi og vellíðan fyrir alla íbúa þess. Óháð aldri. Óháð búsetu. Alltaf.

Ég leggst á koddann eftir góðan dag, þakklát fyrir að hafa heilsu til að geta boðið barnabarninu í ömmudekur endrum og eins. Ég hjúfra mig undir dúnmjúka sængina við hlið eiginmanns míns –  sem á sínum tíma kynnti mér fyrir þessari dásamlegu strönd. Brimið endurtekur vögguvísuna frá kvöldinu áður og við lognumst útaf.

Góða nótt.

Fyrri hluti sögunnar er sannsögulegur, seinni hlutinn skáldskapur út frá óskhyggju höfundar.

 

Kæru íbúar Árborgar, bæjarstjórn og aðrir ábyrgðaraðilar í skólamálum sveitarfélagsins

Það þarf heilt samfélag til að ala upp barn. Það eru kannski fáir sem vita það, en okkur er öllum skylt að fylgja ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Við sem samfélag eigum að tryggja að öll börn njóti sömu réttinda án nokkurrar mismunar og hvet ég ykkur eindregið til að kynna ykkur sáttmálann ef þið hafið ekki gert það nú þegar. Einnig er rétt að koma því á framfæri að það er á ábyrgð sveitafélaga að tryggja börnum viðunnandi skólahúsnæði, en samkvæmt 5 .gr. laga um grunnskóla er rekstur almennra grunnskóla á ábyrgð og kostnað sveitarfélaga. Sveitarfélög bera ábyrgð á heildarskipan skólahalds í grunnskólum sveitarfélagsins, þróun einstakra skóla, húsnæði og búnaði grunnskóla, sérúrræðum grunnskóla, [skólaþjónustu], 1) mati og eftirliti, öflun og miðlun upplýsinga og á framkvæmd grunnskólastarfs í sveitarfélaginu. Jafnfram segir í 13.gr. laga um grunnskóla að Allir nemendur grunnskóla eiga rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan. Út frá þessu má leiða að Sveitarfélagið Árborg hefur sofið á verðinum varðandi skólaaðstöðu á ströndinni þrátt fyrir viðvörunarbjöllur þorpsbúa til margra ára. Viðvörunarbjöllur þessar má lesa í gömlum fundargerðum bæjarstjórnar áratugi aftur í tímann.

 

Nú er kominn tími til að bæta upp fyrir mistökin.

Gangi ykkur vel!

Með virðingu og vinsemd,
Tinna Björg Kristinsdóttir,
3 barna móðir búsett á Stokkseyri