9.5 C
Selfoss

Neyðarástand í aðgerðarleysi

Vinsælast

Síldarvinnslan hefur fest kaup á jörðinni Fannardal í Norðfirði og er áformað að nýta hana til skógræktar, til að binda kolefni á móti kolefnislosun sem starfsemin veldur. Stefnt er að því að hin fyrirhugaða skógrækt í landi Fannardals verði framkvæmd í samvinnu við Skógrækt ríkisins. Verkefnið á að fullnægja öllum kröfum Loftslagsráðs um vottun og á skógræktunin að verða hæf til skráningar í Loftslagsskrá Íslands. Þetta má m.a. lesa á vef fyrirtækisins.

Virkja saman læk og skóg.

Það er ánægjulegt að fyrirtæki hugi markvisst að verkefnum á sviði umhverfis- og loftlagsmála. En er ekki fólgið í þessu tækifæri fyrir útgerðarinna að styðji við bakið á landbúnaði í landinu. Það gerist með því að fela bændum að taka að sér skógrækt fyrir útgerðina. Það fer betur á því en að útgerðin fari að stunda landbúnað í formi skógræktar. Sterkar greinar eins og sjávarútvegurinn eiga að styðja við þjónustu og atvinnulíf í stað þess að gina yfir því öllu. Huga mætti að samstarfi á fleiri sviðum eins og við uppbyggingu smávirkjana þar sem nálægð gerði það mögulegt. Raforkukaup beint frá býli. Ég sé þarna tilvalið tækifæri til tímamótasamvinnu útgerðar og bænda og gamalt orð fengi nýja merkingu. „Útvegs-bændur virkja saman læk og skóg.“

Bera ábyrgð í loftlagsmálum.

Síldarvinnslan og fleiri fyrirtæki hafa farið í rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja, sett upp  raf-landtengingabúnað fyrir fiskiskipin sem eru sparneytn-ari en áður og nota minni olíu. Á tíunda áratug síðustu aldar var hlutdeild sjávarútvegs í olíunotkun hér á landi að jafnaði rúmlega 42% en hefur á undanförnum árum verið í kringum 14%. Það er eftirtektarverður árangur á sama tíma og verðmæti afurða sjávarútvegsins vaxa stöðugt. En öll þessi viðleitni til að nýta raforku og bera ábyrgð í loftslagsmálum er stöðvuð af Alþingi sem kemur í veg fyrir endurnýjun flutningskerfis raforku og raforkuskortur eykur aðeins á olíunotkun.

Neyðarástand í aðgerðarleysi.

Nú er svo komið að allur ávinningur af milljarðaframlögum ríkisins til að rafvæða bílaflotann hverfur út í andrúmsloftið með olíureyknum. Við erum að keyra allt frá fiskimjölsverksmiðjum og kyndistöðvum yfir í rafknúnu ferjuna Herjólf á dísilolíu þessa dagana. Það er tímabært að lýsa yfir neyðarástandi í aðgerðarleysi á uppbyggingu flutningskerfis á raforku.  Og mæta orkuskiptum með því að skipta úr jarðefnaeldsneyti í raforku sem er framleidd á sjálfbæran hátt. 

Til þess þarf að virkja.

Ásmundur Friðriksson alþingismaður.

Nýjar fréttir