5.6 C
Selfoss

Áhugaverðustu skáldin alltaf á skjön við hugmyndafræði síns tíma

Vinsælast

Áhugaverðustu skáldin eru alltaf á skjön við hugmyndafræði síns tíma

segir lestrarhesturinn Unnar Magnússon

Unnar Magnússon er 24 ára, fæddur og uppalinn Selfyssingur og kláraði grunn- og framhaldsskólagöngu sína á Selfossi. Hann byrjaði háskólagöngu sína í Bandaríkjunum, en útskrifaðist með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands í fyrravor. Unnar starfar nú sem vátryggingaráðgjafi hjá TM, auk þess að spila knattspyrnu með stórliði Hamars í Hveragerði.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Þessa dagana er ég að lesa Fávitann eftir Fjodor Dostojevski (1821-1881). Ég valdi hana úr hillu foreldra minna eins og flestar bækur þar á undan. Ég valdi Fávitann eftir að hafa lesið Góða dátan Sveijk, eftir Jaroslav Hasek (1883-1923) en mig langaði að lesa eitthvað í svipuðum dúr. Það sem vakti hvað helst áhuga minn á Fávitanum var húmorinn, persónusköpunin og hugmyndafræði rithöfundar. Heimspeki og hugmyndafræði Dostojevskis þykir mér áhugaverð. Ég hafði áhuga á því að skoða hvort og þá hvernig hugmyndafræði hans kemur fram í skrifum hans. 

En hvers konar bækur höfða helst til þín?

Það eru alls konar bækur sem höfða til mín. Á veturna eru það þó helst bækur sem gerast annars staðar en hér á landi. Mér þykir gott og raunar nauðsynlegt að geta sloppið úr skammdeginu hér og dvalið í huganum á öðrum stað, hvar sem er, í þessum heimi eða öðrum. Bækurnar verða þó að hafa húmor, heimspeki, pólitík, eða bara gott ævintýri. Mikilvægast er þó að bækurnar séu vel skrifaðar. Mér þykir ómögulegt að lesa illa skrifaðar bækur.

Ertu alinn upp við bóklestur?

Ég var alinn upp við mikinn lestur, foreldrar mínir mikið áhugafólk um bókmenntir, ömmur og afar, og eldri systkini lásu mikið og gera enn. Mamma er ötul talskona þess að lesa fyrir börn, eins og margir sem þekkja hana vita, svo það var mikið lesið fyrir mig á uppvaxtarárunum og er ég mjög þakklátur fyrir það. Uppáhalds barna- og unglingabækur voru Harry Potter og Artemis Fowl. Ég las þessar bækur allar 10-12 sinnum og urðu þær betri með hverju skiptinu. Það er stórlega vanmetið að lesa bækur oftar en einu sinni. Aldrei er góð vísa of oft kveðin, og góð bók of oft lesin. 

Segðu aðeins frá lestrarvenjum þínum?

Ég er óreglumaður þegar það kemur að lestrarvenjum. Hér á árum áður las ég alltaf áður en ég fór að sofa en geri ekki lengur, nú les ég bara þegar mér sýnist. Þegar tími gefst til, gott næði, sæmilegur friður og jafnvel kaffibolli. Heima finnst mér gott að hafa góða tónlist í bakgrunn, eða jafnvel kveikt á Rás 1 án þess þó að vera að hlusta. Best er þó að lesa innan um fólk úti, úti í íslenskri náttúru eða á meginlandinu með gott útsýni yfir fallegt stöðuvatn, fjöll eða skóglendi. 

Áttu þér einhverja uppáhaldshöfunda?

Ég á mér svo sem engan uppáhaldshöfund, mér finnst skemmtilegt að kynna mér höfundinn sjálfan. Lesa um þá höfunda sem ég er að lesa hverju sinni, um uppvaxtarár, pólitík og humyndafræði. Mér þykir oft áhugaverðastir rithöfundar eins og Dostojevski, sem eru á skjön við hugmyndafræði síns tíma. Annars hef ég gaman af skemmtilegu fólki, þar á meðal eru Bragi Páll Sigurðarson, Fríða Ísberg og Bergur Ebbi. Listinn er sem betur fer ekki tæmandi. 

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Já, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hefur bók rænt mig svefni. Það var helst Harry Pott-er, Hringadróttinssaga og Artemis Fowl þegar ég var yngri. Það var oft lítið sofið þegar ég var að lesa þær, sérstaklega ef það var í jólafríi. Núna kemur það ekki eins oft fyrir, en þó við og við. Stormlight Archive seríuna eftir Brandon Sanderson er erfitt að leggja frá sér. Svefnleysi er því oftast tengt við einhvers konar ævintýrabókmenntir.

En að lokum Unnar, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Sem rithöfundur myndi ég reyna eftir bestu getu að skrifa eitthvað sæmilega skemmtilegt. Mér þykir gaman að pæla í fólki og umhverfi svo það lægi kannski helst fyrir mér að skrifa eitthvað þar sem ég gæti búið til persónur. Ég er hins vegar handónýtur að semja spennandi söguþráð, svo það væri fátt um fína drætti í þeim efnum. Ég dáist líka að fólki sem hefur hugmyndaflug og getu til að búa til nýja heima. Það væri magnað að geta það. 

Umsjón með Lestrarhesti hefur Jón Özur Snorrason. Sendið tillögur á jonozur@gmail.com

Nýjar fréttir