4.2 C
Selfoss

Setur Selfoss heimsmet – í álögðum fasteignagjöldum?

Vinsælast

Jæja, nú er hinn árlegi glaðningur kominn fram á ísland.is, þ.e. álagningarseðilinn fyrir fasteignagjöldin á Selfossi/Árborg fyrir árið 2022.  Eins og fyrri ár eru fasteignagjöldin á Selfossi með þeim hæstu eða hæst á Íslandi.  Ég hef að vísu heyrt að Fellabær/Egilsstaðir veiti okkur harða samkeppni en hef ekki séð staðfestar tölur þaðan.  En skyldu gjöldin á Selfossi vera heimsmet í álagningu gjalda á íbúðarhúsnæði?  Spennandi ef
hægt væri að gera raunhæfan samanburð á milli landa.

Svo forðast megi allan misskilning þá er alls ekki átt við að gjöldin séu svona há í öllu sveitarfélaginu Árborg, alls ekki.  Það er nefnilega fasteignamatið á Selfossi sem hækkar um ótrúlega há hlutföll á milli ára sem ræður þessu.  Það á ekki við um sveitina, Tjarnarbyggðina eða þorpin við ströndina.  Sömu álagningarprósentur eru allsstaðar í sveitarfélaginu eins og eðlilegt er.

Ég hef borið mig saman við vini og ættingja sem búa í öðrum byggðarlögum og það kannast enginn við svona tölur eins og ég fæ að njóta eða rúmlega 519 þúsund á 175 fm. parhús.  Hækkun fasteignagjaldanna á húsið mitt á árabilinu 2017 – 2022 (rétt rúmlega núverandi kjörtímabil) er nálægt 65%.  Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um tæp 19%.  Ef ég er með réttar upplýsingar þá hefur launavísitala hækkað um rúmlega 30% á sama tíma.  Til gamans birti ég mynd af hluta álagningarseðlanna fyrir árin 2021 og 2022.  Þar sést að allt hækkar á milli ára nema sorpgjöldin, þau eru sama krónutala bæði árin.  Þakka ber það sem vel er gert.

Eigum við ekki bara gott færi á að ná heimsmetinu, a.m.k. í hækkun gjaldanna á þessu tímabili?  Ef ég er ekki farinn að kalka alvarlega, þá minnir mig að sum ef ekki flest framboðin til bæjarstjórnar í síðustu sveitarstjórnarkosningum 2018, hafi verið með fyrirheit um lækkun fasteignagjaldanna á kjörtímabilinu sem nú er nánast liðið, ef þau kæmust til áhrifa.  Kannski hafa þau ekki komist til áhrifa eða hafa bara gleymt þessu?  Svo er alltaf gott að eiga ónotuð loforð sem hægt er að endurnýta.  Endurvinnsla og endurnýting eru umhverfisvænu hugtökin í dag og um að gera að nýta það.

Sagt er að við þurfum að búa við þessar skefjalausu hækkanir af því að svo margt fólk er að flytja á Selfoss.  Við fögnum öllum nýjum íbúum og tökum vel á móti þeim, að sjálfsögðu.  En þetta kallar á stanslausa vinnu við gerð nýrra innviða, götur, lagnir, skóla, leikskóla, félagsþjónustu og íþróttaaðstöðu og ótal margt fleira.  Gott mál, en afhverju skilar þessi fjölgun sér ekki í því að við njótum hagræðingar af fleiri íbúum og fleiri fasteignum sem öll bera gjöld?  Þetta virðist bara skila sér í því að bæjarsjóður er sagður vera á kúpunni með nánast ókleifan skuldahala.  Ég hef eðlilega ekki séð ársskýrslu og uppgjör bæjarsjóðs fyrir síðasta ár, en hef heyrt að ekki sé um fallegar tölur þar að ræða.  Þetta kemur í ljós í fyllingu tímans.  En hver er þá ávinningurinn af hraðri fjölgun íbúa?  Er hann kannski bara í hærri tölum um íbúafjölda?  Kannski kemur fram einhver hagræðing eftir 15 – 20 ár?, en þá verðum við þessir núverandi heldri borgarar mögulega ekki hér í eigin húsnæði.

Sum sveitarfélög, þar sem fasteignamatið hækkaði mikið á síðasta ári, lækkuðu álagningarprósentur til þess að milda höggið fyrir sína íbúa, en ekki Árborg.  Það er gott til þess að vita að bæjarfulltrúar Árborgar hafa þá tröllatrú á tekjumöguleikum okkar eldri borgaranna og launafólksins að okkur muni bara ekkert um þetta.

Sumir spyrja þegar þessi mál ber á góma, afhverju kemur þú þér bara ekki í burt og flytur annað þar sem skattpíningin er minni?  Góð spurning, en viljum við flæma íbúa Árborgar burt með ofurháum gjöldum?  Nei, ég held ekki.  Það er nefnilega gott að búa í Árborg, þrátt fyrir háu gjöldin sem þó rýra ráðstöfunarfé okkar mikið.  Þessi rýrnun á ráðstöfunarfé okkar leiðir til minni kaupa okkar á vörum og þjónustu hjá okkar ágætu þjónustuaðilum.

Eigið góða tíð á Þorranum og Góunni og bara alltaf.

Guðmundur Ingi Gunnlaugsson

Eldri borgari á Selfossi

Nýjar fréttir