0 C
Selfoss

Hver er Valli?

Vinsælast

Á tímabili hafa börnin mín haft mikin áhuga á að lesa/skoða bækurnar „Hvar er Valli?” Þessar bækur krefjast þess að þú sért með hugann við verkefnið – að finna Valla. 

Byrjum á ímynda okkur að Valli sé venjuleg manneskja. Maður sem ólst upp í íslensku þorpi. Fjölskylduaðstæður hans voru nokkuð venjulegar. Foreldrar hans skildu þegar hann var barn og hann ólst upp hjá móður og stjúpföður. Hann átti ágætis samband við þau. Það var samt sem áður ekkert mikið talað um tilfinningar. Hann var hvattur til að herða sig upp og hætta að gráta ef eitthvað kom upp. Hann fór snemma að sjá fyrir sjálfum sér. Harðduglegur ungur maður.  Hann fór snemma að heiman. Fór í skóla. Eignaðist kærustu. Skildi samt ekkert í því af hverju henni fannst hann ekki skilja hana, svo þau hættu saman. Þannig endurtók þetta sig og nú var hann komin í samband sem hann vildi ekki klúðra. Hann átti frábæra kærustu og átti von á barni. Hann kunni ekkert á þetta tilfinningastúss svo hann ákvað að fara í ráðgjöf áður en að barnið myndi fæðast.

En „af hverju fór Valli í ráðgjöf? 

Valli er eins og ég og þú. Stundum er hann ekki í sambandi við sjálfan sig. Stundum skilur hann sig ekki. Stundum bregst hann við hinum ýmsu aðstæðum og erfiðleikum á óþroskaðan hátt. Stundum skilur hann ekki að fortíðin hefur áhrif á nútíðina. Hann áttar sig ekki á því að hann á erfitt með að tala um tilfinningar af því að hann áttar sig bara alls ekkert á því hvernig honum líður. Hann skilur ekki að skilnaður foreldra sinna hafði áhrif á hann. 

Valli fór ekki í ráðgjöf fyrir neinn annan þótt hann héldi það í byrjun. Hann þurfti að kynnast sér. Átta sig á sínum styrkleikum og veikleikum. Skoða vanmátt sinn. Átta sig á því hvað það var sem hann óttaðist. Skilja hvað hann gerði vel og hvað hann gat gert betur. 

Valli fór í ráðgjöf til að finna sjálfan sig.

Getur verið að þú þurfir að finna þig? 

Það er svo gott að gefa sér tíma til að finna sjálfan sig. Maður getur gert það á ýmsan hátt. T.d .með því hlusta á hlaðvörp eða bækur sem hjálpa þér að byrja að skilja sjálfan þig, fara í 12 spora samtök, fara á námskeið sem fara inn á við og hjálpa þér að skilja betur þín eigin viðbrögð og líðan nú eða fara í ráðgjöf. Það er alltaf best að byrja einhversstaðar og vera opin fyrir því að sjá bæði það jákvæða og neikvæða í manns eigin fari. Maður getur víst alltaf vaxið og dafnað er það ekki?

Við getum ekki orðið það sem við þurfum að vera með því að vera það sem við erum. – Oprah Winfrey

Gangi þér sem allra best,
Gunna Stella

Nýjar fréttir