Stefán Gunnar Stefánsson gefur kost á sér í 1. sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar í Árborg. Stefán er iðnfræðingur að mennt og starfar sem fageftirlitsmaður fjárfestingarverkefna hjá Veitum.ohf, þar sinnir hann verkefnum á Suðurlandi og í Reykjavík. Stefán er brottfluttur Dalamaður og hefur búið í Árborg síðan 2015.
„Sveitarfélagið Árborg á sér bjarta framtíð. Gríðarleg íbúafjölgun hefur verið undanfarin ár og stór hluti þeirra ungt fjölskyldufólk, tel ég mikilvægt að tryggja þeim hópi öruggt umhverfi og góða þjónustu. Svo hröð uppbygging er mikil áskorun fyrir sveitarfélög og innviði þeirra. Mikilvægt er að stuðlað sé að góðu jafnvægi í uppbyggingu og horft sé til framtíðar í skipulagsmálum.
Mannlíf bæjarins hefur tekið á sig töluvert breytta mynd á skömmum tíma með nýju og öflugu fólki. Sveitarfélagið Árborg er frábær staður og hér er gott að búa. Það er mjög gefandi og gaman að sjá og upplifa þær breytingar á umhverfinu sem hafa verið á undanförnum árum.
Þess vegna hef ég ákveðið að gefa kost á mér í 1. sæti á lista Framsóknarflokksins í Árborg því ég hef áhuga á að taka þátt í þeirri vegferð að gera gott sveitarfélag enn betra.“