8.9 C
Selfoss
Home Fréttir Vangaveltur um fjölgun bæjarfulltrúa í Árborg

Vangaveltur um fjölgun bæjarfulltrúa í Árborg

0
Vangaveltur um fjölgun bæjarfulltrúa í Árborg
Bragi Bjarnason deildastjóri hjá Sveitafélaginu Árborg og áhugamaður um sveitarstjórnarmál
Bragi Bjarnason.

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011, skulu sveitarstjórnir setja sér samþykktir um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins og um meðferð þeirra mála sem sveitarfélagið annast. 

Um þessar mundir stendur yfir umræða í Bæjarstjórn Árborgar um breytingar á samþykktum um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins Árborgar sem snúa m.a. að fjölda kjörinna bæjarfulltrúa, meðferð mála og stjórnsýslunni í sveitarfélaginu. Í dag er Bæjarstjórn Árborgar skipuð 9 bæjarfulltrúum sem hlutu kosningu árið 2018. Í þeim breytingatillögum sem nú liggja fyrir bæjarstjórn er tillaga um að fjölga bæjarfulltrúum í 11 eftir sveitarstjórnarkosningarnar þann 14. maí nk. 

Kveðið er á um fjölda bæjarfulltrúa í 11. gr. Sveitarstjórnarlaga. Þar eru tiltekin viðmið um fjölda bæjarfulltrúa miðað við íbúafjölda sveitarfélags. Þar sem íbúar eru 10.000 – 49.999 ættu að vera 11-15 bæjarfulltrúar. Þó er ekki skylt að fækka eða fjölga aðalmönnum í sveitarstjórn fyrr en íbúatala hefur verið hærri eða lægri en viðmiðunarmörkin í fjögur ár samfellt, talið frá næstu áramótum fyrir almennar kosningar til sveitarstjórna. Frá áramótunum 2020 hefur sveitarfélagið Árborg verið með lágmarksfjölda íbúa og gæti af þeim sökum tekið þá ákvörðun að fjölga ekki bæjarfulltrúum fyrr en við kosningar til sveitarstjórnar 2026. 

Af þessu sögðu er mikilvægt að velta fyrir sér hvað er skynsamlegast fyrir sveitarfélagið á þessum tímapunkti. Er það að fjölga bæjarfulltrúum? Er það að fresta fjölgun bæjarfulltrúa um fjögur ár og nýta tækifærið til að endurskipuleggja og gera starfsumhverfi bæjarfulltrúa þannig að það sé í takti við stærð og rekstur sveitarfélagsins? Þessar spurningar eru ekki einfaldar og í raun margslungnar. 

Undirritaður hefur starfað sl. 15 ár innan stjórnsýslu Sveitarfélagsins Árborgar og starfað þar með fjölda góðra bæjarfulltrúa, bæði í núverandi bæjarstjórn og áður, sem hafa haft
metnað og vilja til að vinna óeigingjarnt starf fyrir sitt samfélag. Sveitarfélagið Árborg er ört stækkandi og hefur það haft í för með sér að bæjarfulltrúar eiga erfiðara með sinna öllum þeim verkefnum sem krafist er af þeim. Á hinn bóginn verður að líta til þeirra sjónarmiða að ekki er alltaf besta lausnin að fjölga starfsmönnum, í þessu tilfelli bæjarfulltrúum, heldur frekar rýna innra skipulag og skapa aðstæður sem gefa núverandi starfsmönnum tækifæri til að ná enn betri árangri.

Mikilvægt er að bæjarstjórn hverju sinni skipi fjölbreyttur hópur einstaklinga á breiðum aldri með mismunandi bakgrunn. Hvort þeim forsendum sé best náð með því að fjölga bæjarfulltrúum strax eða fresta og nýta tækifærið til endurskoðunar er erfitt að segja en með tilliti til rekstrarþáttarins væri hægt að hallast frekar að seinni kostinum.  Því miður, og þar er Sveitarfélagið Árborg ekki eitt um, er hætta á að ákveðin hluti samfélagsins leitist síður eftir því að starfa á þessum vettvangi ef starfsumhverfið býður varla upp á aðstæður sem hvetja einstaklinga til að sækjast eftir því. 

Bragi Bjarnason
deildastjóri hjá Sveitafélaginu Árborg
og áhugamaður um sveitarstjórnarmál