2.3 C
Selfoss

Samræmd móttaka flóttafólks í Árborg

Vinsælast

Sveitarfélagið Árborg er eitt af fimm sveitarfélögum á Íslandi, auk Akureyrarbæjar, Hafnarfjarðarbæjar, Reykjanesbæjar og Reykjavíkurborgar sem gerði vorið 2021 samning við félagsmálaráðuneytið og tekur þátt í samræmdri móttöku flóttafólks sem rekin er af ríkinu. Þetta þýðir að flóttafólk, sem hefur fengið alþjóðlega vernd hér á landi, hvort sem það hefur komið hingað á eigin vegum eða í boði stjórnvalda, fær samræmda þjónustu. Þetta er tilraunaverkefni til eins árs. Þannig hafa 17 þátttakendur í verkefninu flust til sveitarfélagsins Árborgar frá Sýrlandi og Afganistan á árinu 2021. Þetta er mjög fjölbreytur hópur, bæði einstaklingar sem og fjölskyldur og á öllum aldri.

Umsjón með verkefninu á landsvísu er í höndum Fjölmenningarseturs. Félagsþjónusta sveitarfélaganna sér um að tryggja samfellda og fjölbreytta þjónustu við flóttafólk sem býr í viðkomandi sveitarfélagi. Sveitarfélagið útvegar húsnæði til leigu og grunnhúsbúnað samkvæmt lista frá félagsmálaráðuneytinu. Málstjóri, starfsmaður félagsþjónustu er tengiliður milli allra þjónustuaðila og samhæfingaraðili þjónustunnar sem felst í auknum stuðningi og ráðgjöf. Málstjórinn sér um að skrá börn í skóla og frístundir, tengja einstaklinga við heilbrigðisstofnanir og aðstoða þá við gerð umsókna, opnun bankareikninga og skráningar í helstu kerfi. Þjónustan felur í sér líka gerð einstaklingsáætlana og tilvísana til Vinnumálastofnunnar. Vinnumálastofnun skipuleggur íslenskukennslu og samfélagsfræðslu auk aðstoðar við atvinnuleit og aðra virkni, svo sem nám, atvinnu með stuðningi og starfsþjálfun. Rauði krossinn parar flóttafólk við sjálfboðaliða sem veita sálrænan stuðning og aðstoð við að leysa úr hagnýtum málum sem koma upp í íslenskum veruleika. 

Fjölmargir aðilar hafa tekið þátt í að tryggja flóttafólki farsæla móttöku og aðlögun í sveitarfélaginu Árborg. Ber hér að nefna samstarfsaðila á svæðinu – Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Rauða krossinn í Árnessýslu og Vinnumálastofnun Suðurlandi en haldnar hafa verið reglulegir undirbúnings- og stöðufundir. Eitt barn byrjaði á leikskóla sl. haust. Starfsfólk og nemendur í Vallaskóla og Sunnulækjaskóla hafa nýlega tekið á móti samtals sex börnum og fjölskyldum þeirra. Að auki hóf einn einstaklingur á framhaldsskólaaldri nám í Fjölbrautaskóla Suðurlands á vorönn 2021 og annar einstaklingur er að byrja í skólanum í janúar 2022. Fræðslunetið og Vinnumálastofnun Suðurlandi sáu um að skipuleggja rafræna samfélagsfræðslu frá Mími-símenntun. Fræðslunetið bauð einnig upp á íslenskukennslu fyrir fullorðna og stefnt er á áframhaldandi íslenskunámskeið. 

Bæði fyrirtæki og íbúar í sveitarfélaginu hafa tekið vel á móti einstaklingunum sem falla undir verkefnið. Nytjamarkaður útvegaði fataávísanir fyrir hópinn en var einnig sveitarfélaginu til taks þegar við leituðum að húsgögnum og öðrum nauðsynjum fyrir hópinn. A4 gaf börnum á skólaaldri skólatöskur og sundlaugin á Selfossi gaf þeim sem vildu sundkort. Starfsmenn banka, apóteka, verslana, flutningsþjónustu og Árborgarstrætós sem og nágrannar buðu flóttafólkið velkomna og voru reiðubúnir til að aðstoða. Fjölmargir einstaklingar í Árborg og víðar vildu gefa húsgögn, föt og annað og stundum reyndist erfitt að annast öll símtöl og skilaboð en við erum afar þakklát fyrir allan sýndan áhuga og velvilja. 

Verkefninu er þó hvergi lokið. Nokkrir einstaklingar úr hópnum eru nú að hefja atvinnuleit með aðstoð Vinnumálastofnunnar og vonandi finna þeir vinnu við hæfi á svæðinu. Allir eru líka að læra íslensku, hvort sem það er í skóla eða á námskeiði og við vonum að þeir fái sem flest tækifæri til að æfa sig á vettvangi. En mest af öllu, vonum við að þeir fái rými hér í Árborg til að blómstra og vera virkir þátttakendur í samfélaginu.

Fyrir hönd sveitarfélagsins Árborgar,

Anna Katarzyna Wozniczka

Nýjar fréttir