8.9 C
Selfoss

Elsti íbúinn er 97 ára og árgangur 1989 fjölmennastur

Vinsælast

Guðjón Pálsson er elsti íbúi Hveragerðisbæjar en hann varð 97 ára þann 3. október 2021. Íbúar Hveragerðisbæjar sem komnir eru á tíræðisaldur eru 19 alls.

Guðjón Pálsson fluttist til Hveragerðis árið 1941 og hóf þá störf að Reykjum jafnframt því að halda gangandi rafstöðinni sem þá var í Varmá en rústir hennar má enn sjá í Varmárgili. Hann lærði rafvirkjun og starfaði sem rafvirki alla sína starfsævi, lengstum hér í Hveragerði. Hann er í dag búsettur á Ási hjúkrunarheimili.

Flestir fæddir árið 1989

Árgangur fæddur 1989 er enn sem áður langfjölmennastur í bæjarfélaginu en þau eru nú 66 búandi í Hveragerði.

Mikið þarf að fjölga í öðrum árgöngum til að velta 1989 úr sessi en næst fjölmennasti árgangur bæjarins sprettir nú úr spori en þau sem fædd eru árið 2019  eru í dag 51 búsett í bæjarfélaginu.  Hinn góði árgangur sem fæddur er 1964 hefur til margra ára verið næstfjölmennastur í bænum en nú bregður svo við að árgangar 1953 og 1956 eru  báðir orðnir jafnfjölmennir honum en í hverjum þessara þriggja árganga búa núna 49 manns hér í Hveragerði. Íbúar sem fæddir eru 1994 eru 48 og þau sem fædd eru árið 1950 eru 47.

Árið 2021 eru þegar fædd 36 börn sem öll munu fá gjöf frá bæjarfélaginu sínu á næstu dögum. Þau sem fædd eru árið 2019 skipa sér nú þegar í flokk fjölmennustu árganga eins og áður hefur komið fram.  Þar er á ferðinni óvanalega fjölmennur árgangur þegar tekið er tillit til þess að enginn annar árgangur yngstu íbúanna nær því að vera fleiri en 40.

Mikil fjölgun framundan

Samkvæmt  upplýsingum úr þjóðskrá þann 30. desember 2021 eru íbúar í Hveragerði nú 2.984 en voru 2.781 fyrir 12 mánuðum. Er þetta aukning um 203 íbúa eða um 7,2% á milli ára sem er mesta fjölgun í sveitarfélagi á Íslandi á árinu og mikil aukning frá fyrra ári en þá fjölgaði um 3% á milli ára sem þó var þá fjölgun lang umfram þá fjölgun sem almennt varð í sveitarfélögum landsins það árið.

Frá árinu 2000 hefur fjölgað um 68,7% eða um 1.216 manns sem er fjölgun langt yfir landsmeðaltali. Núna eru ríflega 200 íbúðir í byggingu eða í farvatninu og má því búast við áframhaldandi fjölgun í Hveragerði á næstu árum.

Með þessari stuttu færslu um íbúaþróun óska ég ykkur öllum farsældar á komandi ári um leið og ég þakka ánægjulegt samstarf og góðar samverustundir á árinu sem er að líða.

Aldís Hafsteinsdóttir,
bæjarstjóri Hveragerðis.

Nýjar fréttir