11.7 C
Selfoss

Mér finnst bækur vera eins og fæða

Vinsælast

segir lestrarhesturinn Bertha Ingibjörg Johansen

Bertha Ingibjörg Johansen hefur starfað sem íslenskukennari við Fjölbrautaskóla Suðurlands síðastliðinn þrjú ár. Hún hefur lengst af búið í Vestmannaeyjum þar sem hún sinnti líki kennslu og rak sitt eigið fyrirtæki. Núna býr Bertha á Hjalla í Ölfusi þar sem um tíma bjó einn löglærðasti höfðingi á miðöldum, Skafti Þóroddsson og Njála greinir frá. Þó Bertha hafi ekki numið lög hefur hún gaman af þessum samanburði.

Hvaða bók ertu að lesa?

Ég er yfirleitt að lesa nokkrar bækur samtímis. Aðdragandi jóla er náttúrulega í uppáhaldi hjá mér með miklu framboði af nýjum bókum. Á náttborðinu og í hillunni á storytel eru Fíkn eftir Rannveigu Sigurðardóttur, Allir fuglar fljúga í ljósið eftir Auði Jónsdóttur og Skjálfti eftir sama höfund. Fíkn vakti áhuga minn fyrir þær sakir að Rannveig fjallar á ögrandi og djarfan hátt um fíknina og hvert hún getur leitt manneskjuna. Auður er í báðum þessum bókum að fjalla um hvað mótar manneskjuna, hvaða atburðir, áföll og það sem er gert og ekki gert þegar barn er að alast upp sem leiðir til þess persónuleika sem fólk verður á endanum.

En hvernig bækur höfða helst til þín?

Mér finnst bækur eins og fæða, maður þarf fjölbreytni. Stundum langar mann í léttmeti, stundum eitthvað hollt og stundum eitthvað krefjandi. Ég hef í gegnum tíðina gengið í gegnum margskonar tímabil hvað þessi mál varðar. Á háskólaárum mínum hafði ég mest gaman af fornbókmenntum, Íslendingasögum, riddara- og fornaldarsögu. Um stund var ég frekar upptekin af sögulegum skáldsögum, síðan tók við ævisögutímabil og seinna bækur um austurlenska speki.

En varstu duglega að lesa sem barn?

Nei, ég var ekkert sérstaklega bókhneigð sem barn, það kom seinna. Auðvitað las maður þessar hefðbundnu barnabækur svo sem Palli var einn í heiminum, Láki jarðálfur og Nancybækurnar og fleira en ekki þó þannig að lestur væri rauður þráður í tilverunni. Hallur afi minn var mikill bókaormur og sagði mér á litríkan hátt sögur tengdar margskonar bókmenntum. Íslendingasögurnar, bækur Laxness og Gunnars Gunnarssonar þekkti hann vel og strax mjög ung voru mikið af persónum og leikendum í lykilverkum okkar Íslendinga orðnir fyrir mér eins og vinir afa sem ég gæti allt eins rekist á í næstu heimsókn til hans. Gunnar á Hlíðarenda hefði allt eins getað setið þá við eldhúsborðið, Guðrún Ósvífursdóttir verið að hella upp kaffið og Egill Skallagrímsson verið með gauragang inni í stofu. Hann hafði sterkar skoðanir á rithöfundum og deildi þeim blessunarlega með mér og til dagsins í dag finn ég þessi áhrif. Ef til vill vegna þessara víðu nálgunar þá á ég ekki neina sérstaka uppáhaldsbók en Njála stendur mér nærri.

Hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Lestrarvenjur mínar eru nú í raun jafn fjölbreyttar og efnið sem ég les. Þyngri fræðibækur vil ég helst lesa við skrifborðið en léttmetið í sófanum með kaffibollann. Ég les í flugvélum, biðstofum, bílferðum og víðast þar sem ég kem. Lestrarvenjur mínar felast helst í því að lesa sem mest.

Einhverjir uppáhalds höfundar?

Ég er afar hrifnæm þegar kemur að höfundum og dáist að því þegar þeim tekst að setja fá orð í þannig röð og samhengi að úr verður risastór sannleikur. Meitluð setning eða tilsvar getur haft sterkari áhrif á mig en sjálfur söguþráðurinn þó auðvitað sé best að þetta fari allt saman. Hjá því verður ekki litið að Kiljan er stórmennið i íslenskum bókmenntum en hann er þó ekki í neinu sérstöku uppáhaldi hjá mér. Hvað ljóðskáld varðar þá hefur hrifning mannsins mín af Einari Ben. nuddast talsvert yfir á mig enda fór þar maður sem meitlaði mjúkar hugsanir úr graníti hinnar íslensku tungu. Í seinni tíð hafði ég sérstakaka unun af þríleik Jóns Kalman, Himnaríki og helvíti en þar heillaði bæði málfar og stíll Jóns mig. Sigríður Hagalín náði sterkt til mín í bókum sínum, Eyland og Hið heilaga orð. Sigríður er hugmyndaríkur höfundur og hún sýnir vel í Eylandi hve stutt er í frumeðli mannsins þegar hætta og ógn steðjar að honum. Svo fannst mér skemmtileg nálgun hennar á öðruvísi fjölskyldumynstri í bókinni Hið heilaga orð. Þar ákveða tvær mæður sem eiga börn með sama manninum að búa saman og ala hálfsystkinin, Einar og Eddu upp saman. Þá leikur Sigríður sér skemmtilega með hugtökin dyslexia og hyperlexia í tengslum við hálfsystkinin, hvarf annars þeirra og ,,hið heilaga orð”.

Hefur bók rænt þig svefni?

Jájá, margsinnis. Ef bókin er góð þá finnst mér ég stundum frekar vera að lifa bók en að lesa hana. Stundum leita hugsanir til mín tengdar bók sem ég er að lesa sem verða til þess að ég næ ekki að festa svefn og stundum hreinlega tími ég ekki að hætta að lesa og fresta því svefni. Það sem lætur mig staldra við er þegar bækur fara með mann út fyrir rammann hugmyndalega og heimspekilega séð. Einnig þegar fallegt mál einkennir verkið. Ég gæti aftur nefnt þríleik Jóns Kalmans, Himnaríki og helvíti. Þegar ég var að lesa hann þá langaði mig oft að skrifa niður meitlaðar setningar.

En að lokum Bertha, hvernig rithöfundur ertu sjálf?

Ef það ætti fyrir mér að liggja að skrifa bók þá myndi ég sennilega vilja festa niður eitthvað tengt Íslendingasögunum og mikilvægi þeirra í sögu okkar mögnuðu þjóðar. Þá væri ekki úr vegi að hnoða í einn góðan krimma sem jafnvel gæti gerst vel áður en nútíma þjóðskipulagi var komið á. Mest mundi mig langa til í að geta skrifað bækur sem víkka sjóndeildarhring lesenda þar sem þær sýndu hversdagslega hluti í nýju samhengi. Ég held nú samt að það fari mér betur að vera þiggjandamegin í þessari bókatilveru og stefni því að því að vera áfram lestrarhestur.

________________________________________________

Ritstjórn Lestrarhestsins er í höndum Jóns Özurar Snorrasonar.

Nýjar fréttir