0.4 C
Selfoss

ÁFRAM LEIKLIST í FSu

Vinsælast

Nemendur í leiklistaráföngum í FSu hafa virkjað sköpunarkraftinn á fjölbreyttan hátt á liðinni haustönn 2021. Unnin hafa verið svokölluð samsköpunarverkefni þar sem hver hópur vinnur með ákveðna leikstíla og þemu. Einnig hafa nemendur unnið að leikritun og persónusköpun þar sem þeir skapa persónur frá grunni og gera þær lifandi og leikandi.

Stórt verkefni á önninni var samstarfsverkefni leiklistarnema og nemenda í íslenskuáfanga í skapandi skrifum. Nemendur í skapandi skrifum, eða ritlist og tjáningu eins og áfanginn heitir samkvæmt námskránni, skrifuðu stuttverk sem leiklistarnemarnir fengu síðan í hendur til að útfæra, túlka og æfa. Hóparnir tveir hittust tvisvar á meðan verkefnið var í gangi, fyrst til að virkja sköpunarkraftinn og svo hittu höfundar leikhópana til að ræða verkin. Að lokum var haldin uppskeru- og leiklistarhátíð þar sem sýnd voru tólf stuttverk. Gríðarlega skemmtilegt og þverfaglegt verkefni sem orðið er fastur liður í námi nemenda í þessum áföngum.

Hópur leiklistarnema skellti sér síðan í leikhús til að sjá verkið Þétting hryggðar eftir Haldór Laxness Halldórsson sem sýnt var í Borgarleikhúsinu.

Lokaverkefni leiklistarnemenda voru svo flutt í síðustu kennsluviku haustannar. Verkefnið snerist um að búa til listrænan gjörning, flytja hann og gera grein fyrir verkinu í umræðum eftir flutning þar sem nemendur útskýrðu verkferil og hugmyndavinnu. Meðal verkefnanna kenndi margra grasa og má þar nefna sýningu á myndverkum, flutningur á frumsömdum ljóðum, frumsamin lög og textar, stuttmyndir, einleikir og margt fleira.

ÁFRAM LEIKLIST í skapandi námi nemenda við Fjölbrautaskóla Suðurlands.            -gg/jöz

Nýjar fréttir