1.7 C
Selfoss

Um málefni fatlaðs fólks

Vinsælast

Ég er móðir tveggja drengja sem eru fatlaðir, mér finnst málaflokkur fatlaðra vera í algjörum ólestri. Réttur þeirra til búsetu er ekki tryggður, hvar eiga þeir að búa? Annar drengurinn fór á heimili fyrir börn 14 ára, í öðru sveitarfélagi þar sem sveitarfélagið okkar er ekki með nein úrræði, hann er 20 ára í dag og þarf að fara annað, 3 drengir eru á heimilinu sem hann er á í dag og eru hinir 2 komnir með nýja búsetu en ekki minn drengur. Hvert á hann að fara? Svo eru þessi búsetu mál ekki á réttu róli þar sem allir eiga að vera í sjálfstæðri búsetu. Eða með sér íbúð. Enginn mundi setja 8 -10 ára barn í sjálfstæða búsetu, er það? Minn drengur er 8-10 ára í þroska (barn í stórum líkama). Honum líður vel í umhverfi sem er fjölskyldu heimili. Hinn drengurinn er enn heima, 21 árs, og engar lausnir í sjónmáli. Hann þarf einnig fjölskylduvænt umhverfi, þarf samkvæmt SIS-mati að vera á sambýli (reyndar þeir báðir). Hvar er réttur þeirra til að fá að vera í umhverfi sem þeim líður vel og eru öruggir í framtíðinni? Sveitarfélögin í landinu okkar er mörg hver ekki að ráða við þennan málaflokk. Mér finnst það hafa verið mikil mistök þegar þessi málaflokkur var fluttur yfir á sveitarfélögin. Sá mikinn mun á þjónustunni þegar það gerðist.

Mér finnst að það sé brotið á rétti þessa fólks þar sem það sitja ekki allir einstaklingar þessa lands við að fá það sem þeim ber, mörg sveitarfélög hreinlega hafa ekki bolmagn til að standa undir þeim kostnaði sem því fylgir að þjónusta þennan málaflokk. Og svo annað, það hlýtur að vera hagstæðara að reka eitt heimili með 3-4 einstaklingum heldur en margar litlar einingar? Svo eru það vinnumál þessa fólks, þar sitja ekki allir við sama borð. Í sumum sveitarfélögum fá þau að vinna (samverustað) í allt að 8 tíma en í öðrum 3,5 tíma.

Ég skora á Alþingismennina og -konur að fara að endurskoða þennan málaflokk! Og tryggja þessum einstaklingum örugga framtíð!

Líney Tómasdóttir,
íbúi á Selfossi.

Nýjar fréttir