10 C
Selfoss

Jólatónleikar í undirbúningi með 50 manna hljómsveit, einsöngvurum og kórum

Vinsælast

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur veitt vilyrði fyrir 10 milljóna króna framlagi á ári til Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands næstu þrjú árin og undirstrikar með því mikilvægi þess að klassísk hljómsveit sé starfandi á Suðurlandi. Guðmundur Óli Gunnarsson hljómsveitarstjóri og aðalhvatamaður að stofnun hljómsveitarinnar er að vonum ánægður enda veit hann hversu mikla samfélagslega þýðingu slík hljómsveit hefur. „Það er hægt að nefna ótal marga jákvæða þætti sem starfsemi svona hljómsveitar hefur í för með sér“ segir Guðmundur Óli. „Hún auðgar menningarlífið, breytir starfsumhverfi tónlistarmanna á Suðurlandi og eflir starf tónlistarskólanna svo eitthvað sé nefnt. Og svo má segja að starfsemi hennar færi samfélaginu arðinn að fjárfestingu sveitarfélaganna í starfi tónlistarskólanna. Margir þeirra nemenda sem ljúka framhaldsprófi eru fyrirtaks hljóðfæraleikarar en kjósa að starfa við annað en tónlist. Það þýðir þó ekki að hæfileikarnir séu ekki fyrir hendi en hvatinn til að halda áfram að æfa sig hverfur. Fiðlur og flautur rykfalla inni í skápum því vettvanginn vantar en með starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands opnast möguleikar og tækifæri verða til.“ 

Starfsemi hljómsveitarinnar eflir líka samskipti og samvinnu þeirra sem starfa við tónlist á Suðurlandi og jólatónleikar hljómsveitarinnar sem verða þann 11. desember í Skálholtskirkju eru gott dæmi um það. Þar mun 50 manna hljómsveit koma fram skipuð atvinnuhljóðfæraleikurum sem búa og starfa á Suðurlandi. Einnig munu nemendur úr Tónlistarskóla Árnesinga og Tónlistarskóla Rangæinga leika með hljómsveitinni og fá nú í fyrsta sinn tækifæri til að spila með klassískri hljómsveit atvinnufólks. „Þetta er einmitt eitt af því sem við viljum gera,“ segir Guðmundur Óli; „gefa nemendum tónlistarskólanna tækifæri á að taka þátt í metnaðarfullum verkefnum sem verða til með tilkomu Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands.“

Um 140 manns munu koma fram á tónleikunum undir stjórn Guðmundar Óla; Kirkjukór Selfosskirkju, Barna- og unglingarkór Selfosskirkju og einsöngvararnir Hallveig Rúnarsdóttir og Eyjólfur Eyjólfsson en stjórnendur kóranna eru þær Edit Molnár og Kolbrún Berglind Grétarsdóttir. „Ég lofa fallegum og hátíðlegum jólatónleikum“ segir Guðmundur Óli að lokum en það er rétt að hafa það í huga að einungis 250 miðar eru í boði, Skálholtskirkja rúmar ekki fleiri, en þetta verður falleg og áhrifarík samverustund á aðventunni.

Nýjar fréttir