7.3 C
Selfoss
Home Umræðan Aukin óráðsía í Árborg

Aukin óráðsía í Árborg

Aukin óráðsía í Árborg
Ljósmynd: GPP.
Sigurður K. Kolbeinsson.
Sigurður K. Kolbeinsson.

Á fundi í bæjarráði Árborgar þann 12. ágúst var samþykkt að ganga frá samningi um makaskipti á landspildunni Tjarnarlæk (byggingarlandi sem tilheyrir Dísarstaðalandi) í skiptum fyrir fasteignina Dísarstaði (land 4) eða svokölluðu „hesthúsalandi“ í austasta hluta Selfoss sem er um 7,9 ha að stærð. Eigendur hesthúsalandsins fá byggingarland í Tjarnarlæk (samtals um 14 ha að stærð) í sléttum skiptum og greiða Svf. Árborg fyrir með hesthúsalandinu skv. samningi þar um. Mikill verðmunur er á þessum landareignum en helstu rökin sem flutt voru fyrir þessum kaupsamningi voru þau að samfara byggingu nýrrar íbúðabyggðar vantaði land undir skóla (sem hluta af innviðauppbyggingu í hverfinu) en skv. 39. gr. skipulagslaga kemur eftirfarandi fram: „Þegar land í einkaeign er gert að byggingarlóðum með deiliskipulagi að ósk landeiganda skal hann þegar framkvæmdir hefjast láta endurgjaldslaust af hendi við sveitarfélagið þá hluta landsins sem samkvæmt skipulaginu eru ætlaðir til almannaþarfa, svo sem undir götur, leikvelli og opin svæði. Landeiganda er þó ekki skylt að láta af hendi með þessum hætti meira land en svarar þriðjungi af flatarmáli þeirra lóða er þannig verða byggingarhæfar. Skv. því sem fram kemur í fundargerðum bæjarráðs annars vegar og bæjarstjórnar hins vegar óskaði oddviti D-listans eftir verðmati á lóðunum (sem ekki lá fyrir þegar samningurinn var kynntur þ. 12. ágúst sl.) og fékk endanleg svör í tvennu lagi en það síðara var sent til hans þ. 16. september með bréfi dagsettu 6. september. Þar er staðfest að verðmat á umræddum landareignum sem vekur nokkra athygli. Byggingarlandið, sem er þegar skipulagt, er þar metið á 210 milljónir (alls um 14 ha) en hesthúsalandið á 80 milljónir (þ.e. óskipulagt) og er þá ansi vel í lagt þar sem um 7,9 ha lands er að ræða. Á þessu er verulegur munur, eða alls 130 milljónir og því spyr ég sem bæjarbúi; var verið að hygla einhverjum í þessum viðskiptum? Hvað leiðir til þess að ákvörðunartakar gera slíkan samning án þess að kynna sér réttar forsendur og verðmat? Er forseti bæjarstjórnar sáttur við slík vinnubrögð? Mun hann hugsanlega þurfa að svara fyrir þennan gjörning á síðari stigum? Það mætti einnig umrita þetta yfir á mánnamál og spyrja; „Ef ég kem með Toyota árg. 2008 til bílasala get ég þá vænst þess að fá samskonar bifreið, árg. 2015 í sléttum skiptum? Svarið vita allir. Þetta er enn eitt dæmið um ákvarðanir meirihluta bæjarstjórnar Árborgar sem eykur á fjármálaóreiðuna í sveitarfélaginu og uppsafnaðan vanda til komandi kynslóða. Hann er hrikalegur og verður ekki öfundsvert hlutverk fyrir nýjan meirihluta að taka við því búi að afloknum kosningum á næsta ári.

Samkvæmt mínum heimildum nam hallarekstur bæjarsjóðs 1.764 milljónum (A-hluti) fyrstu 7 mánuði ársins sem er meira en grafalvarleg staða. Sveitarfélagið er því í dyrum gjörgæslu hjá hinu opinbera ef fram fer sem horfir. Hvernig líst íbúum bæjarfélagsins á þá stöðu? Einn fulltrúi meirihlutans ritaði á Facebook þ. 18. september sl.: Maður bregður sér frá í skamma stund og það er allt að gerast. „Nýr miðbær, fjölnota íþróttahús, plön malbikuð, 2 hringtorg, stofnvegir osfrv. komið í notkun eða að komast í notkun. Verkin tala.“ Þetta eru jú orð að sönnu en bæta mætti við: „Peningar mala“. Þarna er gerð tilraun til að skreyta gjörðir núverandi meirihluta með gjörðum fyrrum meirihluta að hluta til, þ.e. nýs miðbæjar og annars hringtorganna sem vitnað er til. Eins og ég hef áður nefnt í grein minni á síðasta ári um óábyrga fjárm.stjórn í Árborg þá þarf ávallt að haga útgjöldum í samræmi við tekjur. Þannig rekum við heimilin okkar í landinu, ekki rétt? Og þannig ala flestir börnin sín upp með þeim einfalda boðskap að þú eyðir ekki um efni fram. Í þessu umrædda máli hefði betur verið hugað að því að láta framkvæma verðmat á eignunum af óvilhöllum aðilum og nota slíkt verðmat til grundvallar þegar kom að samningsgerðinni sem skiptir „gjaldþrota“ sveitarfélag miklu máli. En því miður er of seint að „tryggja eftir á“. En kæru bæjarbúar í Árborg; hafið í huga að bæjarstjórnarkosningar fara fram næsta vor og þá mun gefast gott tækifæri til að „stoppa í þetta gat“ óreiðunnar og velja fólk til starfa sem kann að fara með fjármál. Við þurfum hvorki Ísfirðinga né annað fólk utan af landsbyggðinni til að leiða þessa vinnu heldur harðduglegt fólk með reynslu úr héraði.

Sigurður K. Kolbeinsson
Viðskiptafræðingur og skattgreiðandi í Árborg