8.9 C
Selfoss

550 skólabörn hlýddu á Sinfóníuhljómsveit Suðurlands

Vinsælast

Sinfóníuhljómsveit Suðurlands lék fyrir rúmlega 550 skólabörn á fimm skólatónleikum í nýliðinni viku. Guðmundur Óli Gunnarsson, hljómsveitarstjóri segir í samtali við blaðið að verkefnið hafi gengið eins og í sögu. „Nemendurnir mættu vel undirbúnir á tónleikana, hlustuðu af athygli og tóku svo hressilega undir þegar hljómsveitin spilaði Á Sprengisandi í lokin.“

Á tónleikunum kom fram 14 manna hljómsveit undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar, auk Friðriks Erlingssonar sem var sögumaður. Fyrstu tónleikarnir voru í Vestmannaeyjum og þaðan var svo haldið í Hvolsskóla og spilað fyrir nemendur í Rangárþingi eystra. Daginn eftir var haldið í Vallaskóla og þar komu saman nemendur 4. bekkja í Árborg auk nemenda úr Kerhólsskóla í Grímsnes- og Grafningshreppi. Því næst lá leiðin í Flóaskóla og tónleikaferðinni lauk svo í Menningarhúsinu á Hellu þar sem hljómsveitin lék fyrir nemendur Grunnskólanna á Hellu og á Laugalandi.

Skólatónleikarnir einn af meginstoðum starfseminnar

Þetta er annað haustið sem Sinfóníuhljómsveit Suðurlands heldur skólatónleika fyrir nemendur grunnskólanna. „Þrátt fyrir óvenjulegt ástand höfum við náð að leika fyrir nemendur í 12 af 15 sveitarfélögum á Suðurlandi. Það er afskaplega ánægjuleg staðreynd enda eru skólatónleikar ein af meginstoðunum í starfsemi hljómsveitarinnar og við hlökkum mikið til að spila fyrir nemendur í þeim þremur sem eftir eru. Vonandi verður það sem fyrst og svo höldum við vonandi bara ótrauð áfram,” segir Guðmunur Óli.

Aðspurður um næstu verkefni sveitarinnar segir Guðmundur: „Næstu verkefni Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands eru jólatónleikar í Skálholti þann 11. desember og nýárstónleikar í Hvergerði í samvinnu við Listasafn Árnesinga og Matkrána.“ Það er því margt að láta sér hlakka til í tónleikahaldi á vegum hljómsveitarinnar á komandi misserum.

 

Nýjar fréttir