6.1 C
Selfoss

Fræðslunefnd Árborgar fjallar um málefni talmeinafræðinga

Vinsælast

Á 36. fundi fræðslunefndar var fjallað um erindi sem barst frá þremur nemum í talmeinafræði við Háskóla Íslands.

Þar er fjallað um skerðingu á starfsfrelsi nýrra talmeinafræðinga í kjölfar handleiðslutímabils þar sem Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) meina þeim greiðsluþátttöku ríkisins nema að þeir hafi tveggja ára starfsreynslu hjá hinu opinbera.

Fræðslunefnd tók undir athugasemdir nemanna og telur það vera óeðlilegt að skerða starfsfrelsi nýútskrifaðra talmeinafræðinga gagnvart starfi fyrir Sjúkratryggingar Íslands. Vegna skorts á talmeinafræðingum víða um land birtist þetta í löngum biðlistum og skertri þjónustu við börn sem glíma við málþroskavanda.

Í sama erindi var bent á að auka þurfi rými fyrir ráðningu talmeinafræðinga við leik- og grunnskóla sveitarfélagsins. Það væri skólunum í hag að hafa talmeinafræðinga í starfi eins og þroskaþjálfa, iðjuþjálfa og aðra fagðila.

Sviðsstjóri upplýsti á fundinum að nú séu þrír talmeinafræðingar í starfi hjá skólaþjónustu Árborgar í samtals 1,8 stöðugildum og til stæði að fjölga þeim meira á næstu árum í takt við fjölgun nemenda. Sama erindi var nýlega rætt á samráðsfundi sviðsstjóra, deildarstjóra skólaþjónustu og skólastjóra, m.a. um mögulega fjölgun fagstétta í grunnskólum sveitarfélagsins.

Fundarmenn voru sammála um að bæði iðjuþjálfar og talmeinafræðingar gætu verið góð viðbót við stoðþjónustu hvers skóla. Nú þegar er til að mynda góð reynsla af því að vera með iðjuþjálfa í starfi í Sunnulækjarskóla.

 

Nýjar fréttir