0.4 C
Selfoss

Nemendur FSu sækja Gullkistuna heim

Vinsælast

Eitt af markmiðum GULLKISTUNNAR á Laugarvatni er að miðla þeirri sköpun og menntun sem þar býr út í samfélagið. Gullkistan hóf starfsemi sína árið 2009 í íbúðum á Laugarvatni og ári síðar einnig í Eyvindartungu sem er síðasti bærinn áður en komið er inn í þorpið. Árið 2014 flutti Gullkistan í eigið húsnæði sem áður kallaðist Tjaldmiðstöðin. Að þessu leyti er Gullkistan skóli eða alþjóðlegt skólasamfélag og kennararnir ekki af verra taginu, prófessorar, lektorar og dósentar við háskóla víða um heim.

Að jafnaði dvelja á Gullkistunni fjórir til sex listamenn (og fræðimenn) í mánuð eða lengur. Þörfin fyrir stað af þessu tagi er talsverð og á sér hliðstæðu út um allan heim. Listamenn þurfa nefnilega næði (og sérherbergi eins og Virginia Woolf skrifaðu um) til að skapa því oft er nauðsynlegt að fara að heiman og út í heim til þess að sinna þeirri sköpun. Rithöfundar og myndlistarmenn af öllu tagi, ljósmyndarar, tónskáld, tónlistarmenn og kvikmyndagerðarfólk svo nokkuð sé nefnt sækja Gullkistuna heim og bera henni sérlega gott vitni. Frá stofnun hafa dvalið á Gullkistunni tæplega sex hundruð listamenn.

Gullkistan er eini dvalarstaðurinn af þessu tagi á öllu Suðurlandi en finna má sambærilega staði víða annars staðar á Íslandi. Starfsemin er eingöngu rekin fyrir eigið fé en viðburðastyrkir hafa komið frá Uppbyggingarsjóði Suðurlands og koma þeir að hluta til móts við kostnað sem fylgir hinum ýmsu uppákomum. Engir rekstrarstyrkir eru í boði á Suðurlandi eins og í öðrum landshlutum fyrir sambærilega starfsemi.

Listamenn koma og fara og reglulega eru haldin Opin hús og námskeið fyrir almenning sem auglýst eru á fjésbókarsíðu Gullkistunnar og víðar. Alltaf er skrefið stigið lengra og nemendum úr leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum boðið að koma í Gullkistuna á námskeið í skapandi greinum eða listamenn þaðan fara til nemenda og inn í skólana.

Föstudagsmorguninn 17. september kom hópur nemenda úr Fjölbrautaskóla Suðurlands í Gullkistuna til að njóta leiðsagnar fjögurra rithöfunda (og háskólakennara) í skapandi skrifum. Dveljandi leiðbeinendur á Gullkistunni voru Robert Fanning, Liza St. James, Jennifer Bartlett og Remy Pincumbe, öll menntuð í skapandi skrifum, háskólakennarar í bókmenntum og rithöfundar. Kunnátta þeirra í kennslu var algjörlega á pari við skáldskaparlist þeirra og ekki stóðu nemendur FSu sig síður, því áhuginn á viðfangsefninu var gagnkvæmur og kraftmikill. -jöz

 

 

Nýjar fréttir