0.3 C
Selfoss

Endurbætur og uppbygging á Litla-Hrauni hafin

Vinsælast

Nauðsynlegar endurbætur og uppbygging á Litla-Hrauni er nú hafin. Lengi hefur legið fyrir að húsnæði og aðstaða á Litla-Hrauni, þessu stærsta fangelsi landsins, er ófullnægjandi á alla mælikvarða. Ríkisstjórnin samþykkti í vor fjárveitingu til mikilla endurbóta og nú er áformað að byggja nýtt þjónustuhús, nýja varðstofu og nýtt fjölnotahús, auk þess sem ráðist verður í lagfæringar á núverandi húsnæði. Framkvæmdakostnaður er áætlaður um 1,9 milljarður króna og falli til á árunum 2021 til 2023, en gert er ráð fyrir að framkvæmdum ljúki á miðju ári 2023. Með þessum framkvæmdum er stefnt að því að vandamál fangelsisins verði færð í fullnægjandi horf og auk þess verði þar byggð upp heilbrigðis- og endurhæfingarþjónusta fyrir allt fangelsiskerfið.

 

  • Alþjóðleg nefnd gegn pyntingum og vanvirðandi meðferð á föngum hefur gert alvarlegar athugasemdir við aðstöðuna á Litla-Hrauni
  • Nánast er ómögulegt að koma í veg fyrir að fíkniefni berist inn í fangelsið. Dæmi eru um efni sem hafa farið í dreifingu um allt fangelsið á örskömmum tíma.
  • Aðbúnaður aðstandenda, þar á meðal barna fanga, hefur lengi verið algerlega óviðunandi.
  • Slæm aðstaða teflir átaki í geðheilbrigðismálum fanga í tvísýnu. Aðstaðan er þess eðlis að öryggi heilbrigðisstarfsmanna er ógnað. Sá góði árangur sem náðst hefur með samvinnu við heilbrigðisyfirvöld er í uppnámi því heilbrigðisstarfsfólki verður ekki ætlað að vinna við jafn ófullnægjandi og ótryggar aðstæður og raun ber vitni.
  • Vinnueftirlitið hefur gert alvarlegar athugasemdir við starfsaðstöðu fangavarða og fanga.

„Þegar einstaklingur er sviptur frelsi sínu er um afar íþyngjandi aðgerð að ræða. Þeirri aðgerð fylgir mikil ábyrgð af hálfu ríkisvaldsins og því ber að sjá til þess að raunveruleg betrun eigi sér stað í fangelsum landsins. Með bættri aðstöðu og aðstoð fagmanna náum við vonandi betri árangri í því að bygga upp einstaklingana sem eru í þessum aðstæðum og gera þeim kleift að byggja sig upp fyrir lífið utan fangelsisins þegar vistinni þar lýkur. Til mikils er að vinna. Hér erum við að hefja löngu tímabærar framkvæmdir og umbætur í fangelsismálum sem við sem þjóð getum ekki dregið lengur,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra.

Samstarfsleið

Farin verður svokölluð samstarfsleið í þessu verkefni sem felur í sér að verkframkvæmdir verða hannaðar í samstarfi við þann aðila sem fær verkið á grundvelli útboðs. Framkvæmdasýsla ríkisins telur að uppbygging og endurbætur við Litla-Hraun henti vel í formi samstarfsleiðar enda einkennist verkefnið bæði af háu tæknilegu flækjustigi og flókinni samhæfingu hönnunar og framkvæmdar í húsnæði sem jafnframt er í notkun á byggingartíma.

Fangelsið á Litla-Hrauni hýsir um helming allra fangelsisrýma í landinu. Í þessum framkvæmdum er horft til þess að byggð verði upp öflug heilbrigðis- og endurhæfingarþjónusta fyrir fangelsiskerfið í heild í samstarfi við heilbrigðisyfirvöld. Með bættri aðstöðu fanga og fangavarða verður til muna auðveldara að halda uppi heilbrigðu og öflugu endurhæfingarstarfi á fjölbreyttan máta.

Vonast er til þess með bættri aðstöðu að smygl á fíkniefnum verði mun fátíðara. Auðveldara verður að skilja að hinar ýmsu deildir fangelsisins og ekki síst bæta aðbúnað aðstandenda til heimsókna. Þar er ekki síst horft til þess að upplifun barna sem heimsækja þurfa foreldri í fangelsi verði ekki verri en efni standa til.

 

Random Image

Nýjar fréttir