7.1 C
Selfoss

„Róðurinn var erfiður en undursamlegur“

Vinsælast

Fjölbrautaskóli Suðurlands átti fjörutíu ára starfsafmæli, mánudaginn 13. september. Fullyrða má að stofnun skólans haustið 1981 sé einn af hornsteinum í uppbyggingu þessa svæðis sem nær úr vestri frá Þorlákshöfn og til austurs alla leið í Vestur-Skaftafellssýslu. Vegna faraldurs er stórum afmælisfagnaði slegið á frest. En þó blésu stjórnendur og starfsmenn skólans til notalegrar samveru eftir kennslu síðastliðinn föstudag, 10. september með dyggri aðstoð margra starfsmanna. Þegar margir leggja hönd á plóg gerast ævintýri og það hefur alltaf einkennt starfsemi FSu.

Nokkrir tóku til máls þar á meðal Sigþrúður Harðardóttir, núverandi kennari og þáverandi nemandi (árið 1981) og vitnaði til samtals sem hún átti nýverið við Heimi Pálsson, fyrsta skólameistara FSu þar sem hann sagði orðrétt: „Það var ungur, næstum barnungur skólameistari sem setti skólann fyrir 40 árum. Raunverulegur skólasetningadagur átti að vera mánudagur en skólameistaraefnið var nógu þjóðrækið og hjátrúarfullt til að segja við skólanefndina: Við byrjum ekki róður á mánudegi. Ég set skólann á sunnudegi þó svo ég brjóti kjarasamninga og allar reglur. Þetta verður nógu erfiður róður samt. Hann varð erfiður, en hann var undursamlegur.” 

Skólastarf í FSu á sér lifandi og fjölbreytta sögu. Í byrjun var skólastarfinu dreift um Selfossbæ og kennsla fór fram í ýmsu húsnæði. Fékk skólinn af því tilefni viðurnefnið Hlaupabrautin. Á tíunda áratug síðustu aldar tókst að koma upp glæsilegri byggingu sem í huga margra gengur undir nafninu Gula húsið. Horn ráða þar ríkjum og hátt er til lofts, víðáttumikill gluggi í suðri en í norðri eru loftkældar kennslustofur á þremur hæðum og horfa allar til Ingólfsfjalls. Fullyrt er að bygging skólahúsnæðis FSu hafi tekið mun styttri tíma en venja var um byggingar af þessari stærðargráðu. Ástæðuna má fyrst og fremst rekja til samtakamáttar sunnlenskra sveitarstjórnarmanna þess tíma sem lögðu fram fé til byggingarinnar og forystu Þórs Vigfússonar þáverandi skólameistara. Megi frumkvæði, sköpun og upplýsing ávallt fylgja starfi FSu.

-jöz

Nýjar fréttir