8.9 C
Selfoss

Bakkastofuhjónin heimsækja dagdvöl aldraðra í Árborg

Vinsælast

Það er fátt meira gefandi en að hitta mann og annan með samveru, sögum og söng og það vita þau sem standa að dagdvöl aldraðra í Árborg.

Til að mæta þeim þörfum, lögðu þau Ásta Kristrún og Valgeir frá Eyrarbakka upp á Selfoss á fund með þessu góða fólki. Þar heilluðust þau bókstaflega af þeirri einstöku og vönduðu aðstöðu sem nýi samkomusalurinn í Árbliki er og hve vel er haldið utan um starfsemina hér í Árborg. 

Til skemmtistundarinnar komu bæði þátttakendur í starfi Vinaminnis og Árbliks. Ekki skemmdi það fyrir hve lifandi og gefandi viðbrögð áheyrenda voru við sögustund Ástu Kristrúnar og undir söng Valgeirs, en þá var ýmist kyrjað eða klappað við taktinn.

Þegar formlegri dagskrá lauk var boðið í heljarinnar vöfflukaffi þar sem áfram var haldið að spjalla. Kaffisamsætið leiddi þá til frjórra frásagna á báða bóga sem uppljóstruðu ýmsum afar áhugaverðum tengingum við fortíðina. 

Í lok heimsóknar smellti Sindri Mjölnir, samstarfsmaður Bakkastofuhjónanna, mynd af þeim Valgeiri og Ástu ásamt Katrínu Ósk Þorgeirsdóttur forstöðumanni dagdvalar aldraðra í Árborg.

Á meðan var Katrín Ósk spurð hverju heimsókn sem þessi skilaði hennar fólki og hún svaraði þá svo til:

„Það er alltaf vel þegið og skemmtilegt að fá uppbrot á deginum og við leitumst við að hafa slíkt að staðaldri. Heimsókn sem þessi lyftir sannarlega lund okkar allra, með sögum úr héraði og tónlist Valgeirs sem flest okkar fólk þekkja, er einkar skemmtileg og upplífgandi.“

Nýjar fréttir