11.1 C
Selfoss

Hvenær verður ný Ölfusárbrú vígð?

Vinsælast

Það er öllum ljóst að gríðarlegt umferðarálag er við núverandi Ölfusárbrú við Selfoss og þar myndast oft langar biðraðir sem ná jafnvel upp á Kambabrún er verst lætur. Hér verður stiklað á stóru um sjálfa framkvæmdina, vegtollarnir eru svo sér kapítuli út af fyrir sig.

Árið er 2015
Morgunblaðið, 12. janúar 2015.
„Hjá Vegagerðinni er vinna komin vel af stað við hönnun og undirbúning fyrir útboð á nýrri brú yfir Ölfusá, norðan við Selfoss. Er búist við að útboð geti farið fram í lok árs 2016 og framkvæmdir geti hafist árið 2017. Samkvæmt samgönguáætlun Alþingis er gert ráð fyrir brúnni á tímabilinu 2017-2019.“

Árið er 2021
Visir.is, 8. júní 2021.
„Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra lofar nýrri brú yfir Ölfusá við Selfoss í lok ársins 2023 eða árið 2024 en framkvæmdir við brúna verða boðnar út um næstu áramót. Brúin mun kosta um sex og hálfan milljarð króna og innheimtur verður vegtollur yfir hana.“

Staða framkvæmda á nýrri Ölfusárbrú

Staða framkvæmda er nánast sú sama og hún var árið 2015. Forhönnun brúarinnar er lokið. Eftir er að klára frumhönnun og fullnaðarhönnun, ásamt ítarlegri deilihönnun. Það á einnig eftir að klára forhönnun og fullnaðarhönnun þjóðvegar nr. 1 að og frá brúnni. Það á eftir að fastsetja hvar hringtorg kemur austan við brúna, hvar endanlega á að staðsetja undirgöng fyrir gangandi og ríðandi og hversu mörg þau verða. Það sem verra er, er að það á eftir að klára samninga við landeigendur á veghelgunarsvæði þjóðvegarins, að og frá brúnni.

Hvenær er raunhæft að vígja nýja Ölfusárbrú?

Það er ekki raunhæft að bjóða út framkvæmdina um áramótin. Það er í fyrsta lagi raunhæft að bjóða út framkvæmdina næsta vor.

Ef farin verður sú leið að bjóða út brúna og vegina að og frá brúnni í svokallaðri PPP-framkvæmd mun taka nokkurn tíma að yfirfara og klára samninga við viðkomandi verktaka sem vinna á verkið, ekki skemmri tíma en 3 til 6 mánuði.

Hönnunin sem síðan á eftir að vinna, mun taka her verkfræðinga um ár að klára. Þannig að framkvæmdirnar munu aldrei geta hafist fyrr en í byrjun árs 2024. Framkvæmdin sjálf mun svo taka tvö til þrjú ár í framkvæmd. Það er því ekki raunhæft að vígja brúna fyrr en í fyrsta lagi árið 2026 og jafnvel ekki fyrr en árið 2027 með sama áframhaldi.

Kæru Sunnlendingar og íbúar á Stór-Árborgarsvæðinu, látið ekki blekkja ykkur til fylgilags við þá flokka sem halda öðru fram. Verum raunsæ, ástandið við brúarsporðinn á Selfossi mun bara versna á næstu árum, ekki batna. Brúin verður ekki vígð fyrr en í fyrsta lagi árið 2026, á þar næsta kjörtímabili.

Tómas Ellert Tómasson
verkfræðingur og bæjarfulltrúi Miðflokksins í Svf. Árborg

Birgir Þórarinsson
alþingismaður og oddviti Miðflokksins í Suður kjördæmi

Nýjar fréttir