1.7 C
Selfoss

Ný ríkisstjórn – niðurgreiðsla sálfræðiþjónustu

Vinsælast

Stjórnmál snúast um fólk. Það gerir þau svo áhugaverð. Þau snúast um að finna lausnir á úrlausnarefnum, að auðvelda líf fólks, gera samfélagið réttlátara og framtíðina bjartari fyrir okkur og komandi kynslóðir. 

Úrlausnarefnin eru mörg. Það fáum við, sem erum í stjórnmálum, að heyra frá öllu því fólki sem við hittum á leið okkar um lífið, hvort sem er í einkalífi eða í gegnum pólitískt starf okkar. Og það eru þessi samtöl, þessar reynslusögur, þessi áköll um breytingar, stórar sem smáar, sem gera stjórnmálin þess virði að starfa við þau. Og sú tilfinning – sú von – að við getum með aðgerðum okkar og ákvörðunum – hjálpað þeim sem eru hjálpar þurfi. 

Þau samtöl sem hvað mest hreyfa við okkur eru samtöl við foreldra og aðstandendur þeirra sem hafa leiðst út í áhættuhegðun, þunglyndi og kvíða vegna áfallaröskunar. Raunveruleikinn er sá að langflestir hafa á lífsleiðinni orðið fyrir áföllum, sumir í æsku en aðrir síðar. Samtölin sem við höfum átt hafa mörg  snúist um hvernig við getum gert betur og skapað umhverfi sem tekur utan um þennan dýrmæta hóp. 

Ein leið er hreinlega að fjárfesta verulega í líðan þjóðar, gera andlega líðan jafngilda þeirri líkamlegu og tryggja að allir hafi aðgengi að hjálp. Og þeirra sem þurfa á þjónustu að halda bíði opinn faðmur og stuðningur í stað endalausra biðlista og himinhás kostnaðar.

Og það var nákvæmlega þetta sem vakti fyrir þingflokki Viðreisnar þegar hann lagði fram mál ásamt þingmönnum úr öllum flokkum um að hefja niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu og annarri klínískri samtalsmeðferð. Frumvarpið var samþykkt einróma, vilji löggjafans var skýr og við fylltumst bjartsýni á að við værum að fjarlægjast pólitískar átakalínur. Þegar hins vegar kom að því að tryggja fjármagn reyndist ekki vilji hjá ríkisstjórnarflokkunum að fylgja málinu eftir.

Skortur á aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu er lífshættulegur. Það segir tölfræðin okkur og reynslan. En þannig þarf það ekki að vera. Þjóðin á betra skilið en ríkisstjórn sem þorði ekki pólitískt að hafna góðu frumvarpi í þingsal. En ætlar sér svo ekki að klára verkefnið. Enda ekki „þeirra mál“. Í nýrri ríkisstjórn með Viðreisn innanborðs verður þetta mál klárað. Því getum við lofað. Í því felast almannahagsmunir.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
formaður Viðreisnar

Sigurjón Vídalín Guðmundsson
3. sæti á lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi

Nýjar fréttir