-1.6 C
Selfoss

Ég stend með bændum

Vinsælast

Fyrir kosningar fer reglulega í gang sérkennileg umkenningarumræða. Oftast er umræðan sprottin úr veikum jarðvegi þar sem sendiboðinn sjálfur er sökudólgurinn. Tollasamningar og búvörusamningar eru mannanna verk. Þar þarf margt að laga. Það verður endalaust verkefni að berjast fyrir bættum kjörum og markaðsaðstæðum bænda. Frá því að ég kom á þing 2013 hef ég lagt mig fram um að standa vörð um hagsmuni bændastéttarinnar, fólksins í sveitinni og staðið með landsbyggðinni. Þar má margt betur fara sem ég vil taka þátt í að laga.

Stuðningur í verki

Ég er í þeirri stöðu að þurfa ekki að endurtaka það sem ég hef sagt og gert til stuðnings bændum. Það liggur allt fyrir. Ég hef sýnt það í verki með fundarhöldum, skrifum og stuðningi mínum við bændur í atvinnuveganefnd og í umræðum og atkvæðagreiðslum í þinginu. Við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi höfum á öllum fundum þar sem landbúnaðarmál eru rædd lýst yfir stuðningi okkar við bændur.

Fjórði maðurinn

Þess vegna er það afar mikilvægt að bændur í Suðurkjördæmi leggist á árar með okkur og tryggi Björgvin Jóhannesson fjórða mann á lista Sjálfstæðisflokksins inn á Alþingi. Björgvin er bændasonur frá Höfðabrekku í Mýrdal og honum rennur blóðið til skyldunnar að verja hagsmuni bænda.

Öryggi þjóðarinnar

Matvælaöryggi og fæðuöflun þjóðarinnar byggir á bændum. Engin þjóð getur staðið sjálfstæð án þess. Gæði, heilnæmi og kolefnisspor íslenskra landbúnaðarafurða er forskot sem framleiðsla í öðrum löndum nær aldrei að komast með tærnar þar sem íslenskir bændur hafa hælana. Ég læt verkin mín um stuðning við bændur tala. Umkenningarumræða um annað er ekki svaraverð og bændum ósamboðin.

Ásmundur Friðriksson
alþingismaður og 3. sæti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi

Nýjar fréttir