7.3 C
Selfoss

Mikil fjölgun íbúa er framundan á næstu misserum í Hveragerði

Vinsælast

Mikil fjölgun íbúa á sér nú stað í Hveragerði.  Nú eru íbúar 2.920 og hefur íbúum því fjölgað um 355 á kjörtímabilinu eða um 14%.  Er sú fjölgun vel yfir landsmeðaltali og augljóst að Hveragerði sem og önnur sveitarfélög í nágrenni höfuðborgarsvæðisins njóta sívaxandi vinsælda.

Lóðum hefur nú verið úthlutað í Kambalandi fyrir 139 íbúðir. Undir lok árs verður þar úthlutað lóðum fyrir 20 íbúðir til viðbótar en þá er fyrsti áfangi Kambalands fullbyggður og þar með má reikna með að þar muni búa um 450 íbúar.

Það fer væntanlega ekki fram hjá neinum að víða um bæinn er verið að þétta byggð og  á hinum ýmsu svæðum eru nú um 30 íbúðir á byggingastigi.  Nú er unnið hörðum höndum að því að skipuleggja ný svæði svo hægt verði að úthluta fjölbreyttum lóðum á næsta ári.  Deiliskipulagi er lokið á lóðum meðfram Varmá (Friðarstöðum og Álfafelli), en þar munu verða 5 einbýlishús, 2 parhús og 1 raðhús með þremur íbúðum.  Það styttist í að þeim lóðum verði úthlutað.

Deiliskipulagi er lokið í Hlíðarhaga þar sem gert er ráð fyrir 45 íbúðum og deiliskipulag er á lokastigi fyrir um 90 íbúðir í tengslum við Heilsustofnun HNLFÍ.  Á fundi skipulagsnefndar þann 7. september er lagt til við bæjarstjórn að breytt deiliskipulag   í Kambalandi verði auglýst.  En þar er nú verið að leggja til fjölbreyttari íbúðategundir í áfanga 2 þannig að þar verði bæði rað- og parhús auk einbýlishúsa.  Í fullbyggðu Kambalandi er þar með gert ráð fyrir  322 íbúðum eða um 1.000 íbúum.  Miðað við framkvæmdahraða undanfarinna missera má búast við að Kambaland byggist mun hraðar upp en fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir.

Það er ljóst að Hveragerði heillar marga.  Hér býðst þjónusta eins best verður á kosið og náttúran hér allt um kring er endalaus uppspretta afþreyingar og útivistar.  Því finnst okkur sem hér búum, og líkar það vel, ekkert skrýtið þó að enn fleiri vilji bætast í hóp Hvergerðinga á næstu misserum.

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar.

 

 

Nýjar fréttir