8.4 C
Selfoss

Gallerí Listasel í nýja miðbænum á Selfossi

Vinsælast

Ólöf Sæmundsdóttir leirlistamaður opnaði 8. júlí, galleríið Listasel í nýjum og glæsilegum miðbæ Selfoss. Hún selur þar eigin listmuni og hefur í umboðssölu listaverk eftir ýmsa þekkta íslenska listamenn. Ólöf leggur áherslu á að vera með einstaka og fjölbreytta listmuni. Hluti af rými gallerísins er ætlaður til sýninga og listamönnum býðst að leigja það í tiltekinn tíma. Gallerí Listasel er næst hringtorginu við brúna yfir Ölfusá og blasir við þeim sem koma akandi til Selfoss. Ólöf flutti til Selfoss fyrir rúmum þremur árum og hefur stundað listsköpun sína þar í vinnustofu sinni. Þegar hún hins vegar eygði tækifæri til þess að stofna til eigin rekstrar í nýja miðbænum þurfti ekki að hugsa sig tvisvar um. „Ég heillaðist af verkefninu og hugmyndafræði þess, innblásinni af sögu okkar og menningu. Þegar nýi miðbæjarkjarninn er fullbúinn verður hann íslenskt svar við gömlum og notalegum evrópskum miðbæjum. Við og gestir okkar munum upplifa svipað andrúmsloft hér og þar en án þess að fara um langan veg. Munum svo að ferð til Selfoss er mun ódýrari og umhverfisvænni en flug til útlanda! Ég ólst upp á Akureyri og er sérlega ánægð með að hafa fengið inni í húsnæði sem er eftirmynd þekktrar byggingar þar í bæ á öldinni sem leið, Hótels Gullfoss að Hafnarstræti 100. Í húsinu voru líka verslanir kenndar við eigendur sína, Braun og Ryel. Hótel Gullfoss var miðpunktur félags- og skemmtanalífs á Akureyri um árabil og því hafa til dæmis Akureyringar sérstaka ástæðu til að koma til Selfoss og virða fyrir sér eftirlíkingu af því fræga húsi sem brann í mars 1945. Leiðir margra eiga eftir að liggja hingað í nýja miðbæinn og er ég viss um að það verður eftirminnileg upplifun í meira lagi,“ segir Ólöf að lokum.

 

Nýjar fréttir