1.7 C
Selfoss

Stefnumót við Múlatorg um helgina

Vinsælast

Hin árlega sumarhátíð Sumarhússins og garðsins, Stefnumót við Múlatorg verður haldin næstkomandi laugardag, 17. júlí frá kl. 11-17. Hátíðin er sannkölluð veisla fyrir fagurkera, unnendur fallegrar tónlistar og garðáhugafólk. Hún hefur verið árlegur viðburður frá árinu 2006 að Fossheiði 1 á Selfossi og hefur laðað að sér fjölda gesta enda er stemning einstök.
Auður I. Ottesen ritstjóri Sumarhússins og garðins stendur að hátíðinni og er við heyrðum í henni þá var hún önnum kafin við að undirbúa hátíðina. „Við höfum verið himinlifandi með móttökurnar á sumarhátíðinni okkar undanfarin ár, hún hefur ætíð verið vel sótt. Við bjóðum til hátíðar fyrir viðskiptavini okkar, heimamenn og þjóðina alla. Margir gera sér ferð frá höfuðborgarsvæðinu og víðar af landinu, árlega kemur hópur áskrifenda að norðan til að upplifa daginn með okkur.“ Á stefnumótinu er boðið upp á lifandi tónlist, allra handa fræðslu og upplifun. „Tónlistaratriðið er alveg stórskemmtileg í ár. Unnur Malín Sigurðardóttir söngvaskáld og tónlistarmaður og Linus Orri Gunnarsson Cederborg fjöltónlistarmaður skemmta með söng og hljóðfæraleik. Unnur Malín leikur frumsamin lög og flytur tóngjörning sem spunninn er á staðnum. Linus Orri er fjöllistamaður sem leikur á fjölda hljóðfæra, sum þeirra hefur hann búið til sjálfur. Hann syngur bæði íslensk og erlend þjóðlög á hátíðinni. Með Linusi verður Josie Anne þjóðlagadanskennari sem kennir sporin í skoskum þjóðdansi. Svo er aldrei að vita nema þau öll bregði á leik saman.“ Auk tónlistar verður á sumarhátíðinn boðið upp á fræðslu um garðyrkju, skógrækt og ýmiskonar handverk. „Á okkar vegum verða fagmenn í garðyrkju, skógrækt og handverksmenn sem fræða gesti.“

Suðrænn og líflegur markaður

Á hátíðinni er líflegur markaðinn sem minnir á suðræna götumarkaði. „Markaðurinn verður æðislegur og mjög fjölbreyttur í ár. Við erum í góðri samvinnu við sveitarfélagið Árborg og fáum að láni söluskúra hjá þeim og setjum upp markaðstjöld fyrir sölufólkið. Við bjóðum handverksfólki og listafólki að selja og kynna vörur sínar. Einnig þeim sem stuðla að endurnýtingu að selja notað og fyrirtækjum með vöru fyrir garð- og sumarhúsaeigendur. Við bjóðum upp á mismunandi stærðir af sölusvæði. Sýnendum bjóðum við í morgunkaffi svo þeir fái tækifæri til að kynnast og takast á við daginn fullir orku.“

Auður segist eiga von á miklum fjölda fólks sem koma til að upplifa markaðsstemninguna, tónlistina, fræðslu og umfram allt vellíðan í fallegu umhverfi með skemmtilegu fólki. „Ég vil nota tækifærið að benda þeim sem hafa áhuga á að selja handverk, listmuni, úr skottinu eða gróður- og sumarhúsavörur að hafa samband,“ segir hún að lokum. Sumarhátið Sumarhússins og garðsins. – Stefnumót við Múlatorg er frábær viðbót við menningarlífið á Selfossi.

Nýjar fréttir