-2.5 C
Selfoss

Oddahátíð og ný sókn í menningarmálum á Suðurlandi

Vinsælast

Stærsti tónlistar- og menningarviðburður á Suðurlandi þetta árið átti sér stað á Oddahátíð, sem haldin var í Odda á Rangárvöllum þann 3. júlí síðastliðinn. Hátíðin markaði þáttaskil á fleiri sviðum en á tónlistarsviðinu einu saman. Hún markaði þáttaskil í sókn sunnlendinga í menningar- og uppbyggingarmálum í víðum skilningi.

Sinfóníuhljómsveit Suðurlands, undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar, hélt skólatónleika í september á síðasta ári, í þeim tilgangi að kynna sig og sinfóníska tónlist fyrir grunnskólanemendum á Suðurlandi. Allir þeir tónleikar tókust frábærlega og kveiktu ljós í hjörtum áheyrenda á þann sérstaka hátt sem aðeins sinfónískt tónlist getur gert: Hún snertir tilfinningarnar með alveg einstökum hætti, eins og allir þeir vita sem hafa upplifað slíkt.

Við sunnlendingar erum einstaklega lánsöm að hjónin Guðmundur Óli Gunnarsson og Margrét Blöndal eru sest að hér á Suðurlandi, með alla sína miklu þekkingu og reynslu í uppbyggingu tónlistarviðburða og reksturs sinfóníuhljómsveitar á Norðurlandi um árabil. Í öllum litlum samfélögum munar um hvern einasta mann. Með tilkomu þeirra hjóna hingað verður til ótrúlega öflugt sóknarfæri fyrir Suðurland á markvissri og kraftmikilli uppbyggingu menningarviðburða.

Oddahátíðin var tileinkuð 30 ára afmæli Oddafélagsins, sem var þann 1. desember á síðasta ári. Hátíðin hófst með vígslu og formlegri opnun Oddabrúar yfir Þverá, sem er gríðarleg samgöngubót fyrir íbúa Landeyja og mikilvægt öryggistæki þegar og ef til skyndirýmingar svæðisins kemur vegna náttúruhamfara, auk þess sem brúin býr til skemmtilega hringleið um Landeyjar, sem eykur möguleika ferðafólks jafnt sem íbúa. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, opnaði brúna formlega. Séra Elína Hrund Kristjánsdóttir, sóknarprestur í Odda blessaði mannvirkið og Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra afhenti forstjóra Vegagerðarinnar, Bergþóru Þorkelsdóttir, brúna og veginn til umsjár og viðhalds. Brúin er einbreið, en hönnuð sérstaklega með það í huga að auðvelt verður að tvöfalda hana þegar þörf krefur.

Eftir formlega opnun Oddabrúar var gengið til helgistundar í Oddakirkju sem séra Elína Hrund stýrði. Færri komust að en vildu í hina gullfallegu gömlu kirkju, sem teiknuð er af Guðjóni Samúelssyni. Í kirkjunni eru viðir úr eldri kirkju sem séra Matthías Jochumsson lét reisa meðan hann var prestur í Odda á árunum 1880-1886. Hin fagra gamla kirkja mun standa um ókomna tíð í Odda og veita áfram öllum þeim sem hana sækja þá trúarlegu upplifun, innri frið og sálarkyrrð eins og hún hefur gert frá upphafi. En það er löngu orðið ljóst að þörfin fyrir nýja og stærri Oddakirkju er orðin knýjandi. Ekki aðeins þurfa margir íbúar að fylgjast með útför sinna nánustu í gegnum útvarpsrás á bílastæði Oddakirkju vegna plássleysis, heldur velja sumir að halda útfarir í öðrum sveitarfélögum svo allir geti setið í kirkju. Allar stærri kirkjulegar athafnir þurfa íbúar að sækja í aðrar sóknir. Þetta er frá öllum sjónarhornum ólíðandi ástand, ekki síst þegar um er að ræða þær athafnir sem snerta dýpstu tilfinningar fólks eins og raunin er um útfarir, brúðkaup, skírnir eða fermingar.

Oddafélagið hefur kynnt tillögur sínar um uppbyggingu í Odda fyrir sveitarstjórnum sveitarfélaganna þriggja í Rangárþingi, fyrir sóknarnefndum allra sókna í Rangárþingi og fyrir ríkisstjórn. Tillögur Oddafélagsins snúa að því að ný 400 sæta Oddakirkja, sérhönnuð sem tónlistarhús, verði reist í Odda, samhliða Sæmundarstofu, menningar- og fræðaseturs í nafni Sæmundar Sigfússonar hins fróða. Oddafélagið lítur svo á að slík uppbygging sé ekki aðeins löngu tímabær heldur bráðnauðsynleg fyrir uppbyggingu Odda sem menningarmiðju Suðurlands.

Þegar helgistund lauk í Oddakirkju þann 3. júlí hófst dagskrá hátíðarinnar í 300m2 tjaldi sem reist hafði verið á bílastæði Oddakirkju. Ágúst Sigurðsson, formaður Oddafélagsins, setti hátíðina og færði sérstökum boðsgestum, þeim Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, séra Kristjáni Björnssyni, vígslubiskup í Skálholti, dr. Þór Jakobssyni, stofnanda og fyrrverandi formanni Oddafélagsins og heiðursfélaga og Sveini Runólfssyni, fyrrverandi landgræðslustjóra og heiðursfélaga, 30 ára afmælismerki Oddafélagsins, en merkið var til sölu á hátíðina til styrktar undirbúningi að uppbyggingu í Odda.

Séra Kristján Björnsson hélt tölu um hin sögulegu tengsl Oddastaðar og Skálholts í gegnum aldirnar og mikilvægi þess að hinir tveir höfuðstaðir Suðurlands héldu góðu og skapandi sambandi sín á milli í framtíðinni. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hélt bráðskemmtilega ræðu um um sögu Oddaverja, um gildi og áhrif menntunar hinnar fyrstu kynslóðar lærðra manna á Íslandi, þ.á.m. Sæmundar fróða og áhrif hans og niðja hans á bókmenningu, á menntun þjóðarinnar og mótun löggjafar sem skapaði hér þjóðríki um aldamótin 1100. (Ræðu forsætisráðherra má lesa á vefsíðu Oddafélagsins, oddafelagid.is)

Að ræðum loknum hófust fyrstu opinberu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar, hljómsveitarstjóra, með Kvennakórnum Ljósbrá, Karlakór Rangæinga, félögum úr Kammerkór Rangæinga og Eyjólfi Eyjólfssyni tenór. Hið 300m2 tjald á bílastæði Oddakirkju var með 80m2 sviði þar sem hljómsveit og kórar frömdu sína mögnuðu list. Þetta voru á margan hátt táknrænir tónleikar og lýsandi fyrir þann skort á veglegu tónlistarhúsi í héraðinu sem sannarlega er til staðar. Hljómburðurinn var reyndar geysilega góður, sem má þakka voldugum skermum á sviðinu og frábærri stjórn hljómsveitarstjórans, Guðmundar Óla. En það fór ekki framhjá neinum af þeim rúmlega 200 tónleikagestum sem náðu sætum, að það vantaði ekki hæfileikana í héraðið; það vantar aðeins tónlistarhúsið.

Fyrst frumflutti hljómsveitin Hátíðarforleik eftir Guðmund Óla, hljómsveitarstjóra. Þá steig Eyjólfur Eyjólfsson, tenór, á svið og flutti þrjú lög með hljómsveitinni: Í fögrum dal eftir Emil og Jón Thoroddsen; Karl sat undir kletti, eftir Jórunni Viðar við ljóð Halldóru B. Björnsson og Storma, eftir Sigvalda Kaldalóns við kvæði Austur-Landeyingsins Steins Sigurðssonar.

Þá gekk Kvennakórinn Ljósbrá á svið og flutti með hljómsveitinni Vikivaka, eftir Valgeir Guðjónsson við kvæði Jóhannesar úr Kötlum og Næturljóð úr Fjörðum eftir Böðvar Guðmundsson. Þá var komið að Karlakór Rangæinga sem flutti Vorgöngu, eftir Jens Sigurðsson við texta Jóns Ólafssonar og síðan Rangárþing, eftir Björgvin Þ. Valdimarsson við kvæði Sigurjóns Guðjónssonar. Öll kórlögin útsetti Guðmundur Óli fyrir Sinfóníuhljómsveit Suðurlands.

Þá var komið að hinum stóra og mikilfenglega frumflutningi dagsins, en það var lag Gunnars Þórðarsonar, tónskálds, við kvæði séra Matthíasar Jochumssonar: Á Gammabrekku. Þá kom Kvennakórinn Ljósbrá aftur á svið ásamt Karlakór Rangæinga og við bættust félagar úr Kammerkór Rangæinga og Eyjólfur Eyjólfsson, tenór. Hið stórfenglega kvæði þjóðskáldsins hafði Gunnar Þórðarson klætt í viðeigandi búning glæsileika kraftmikils hyllingarbrags.

Fögnuður tónleikagesta að flutningi loknum var ákafur og einlægur, og ekki laust við að sumum virtist hreinlega brugðið að upplifa aðra eins tónleika hér í miðri sveit. En listin spyr ekki að heimilisfangi eða póstnúmeri: Hún spyr aðeins að hæfileikum og ástríðu. Og hér er hvort tveggja ríkulega til staðar.

Menning og menningarsköpun er hvorki skraut né prjál: Menning er orka. Menningarstarf virkjar þá orku og hleypir henni inn í samfélagið þar sem hún heldur áfram að gefa og skapa. Enn í dag búum við að þeirri orku sem upphafsmenn íslenskra bókmennta leystu úr læðingi fyrir 900 árum síðan í Odda. Menning er sannarlega orka sem áhugamenn og starfandi listamenn virkja og dreifa um þjóðarlíkamann til heilla og bættra heilsu fyrir samfélagið allt.

Hin stóru þáttaskil sem þessi Oddahátíð markar eru augljós. Hún setti nýtt viðmið þegar kemur að tónlistar- og menningarviðburðum í héraði og hún sýndi ljóslega að á Suðurlandi er ástríðufullt hæfileikafólk sem okkur öllum ber skylda til að styðja við og styrkja til að láta ljós sitt skína – því það ljós lýsir okkur öllum; það bætir og fegrar mannlífið og það heldur áfram að gefa af sér úti í samfélaginu. Með nýrri Oddakirkju, sem yrði sérhönnuð sem tónlistarhús, ásamt byggingu Sæmundarstofu, menningar- og fræðaseturs í Odda á Rangárvöllum, mun rísa eitt voldugt orkuver sem mun halda áfram að gefa af sér um ókomna tíð sem menningarmiðja á Suðurlandi.

Margir munu segja að Suðurland sé fyrst og fremst landbúnaðarhérað, en þá skulum við ekki gleyma því að það var fátækt alþýðufólk af bændastétt sem hélt ljósi menningarinnar lifandi í gegnum aldirnar í kvæðum, sögum, rímum, þjóðsögum, söngvum og ljóðlist. Án hinnar ástríðufullu varðveislu kynslóðanna á hinum dýrmæta menningararfi okkar værum við afskaplega fátækt fólk, þótt við værum rík í efnislegum gæðum. Því efnisleg gæði eyðast og hörna á meðan hin menningarlegu gæði lifa um aldir og halda áfram að gefa af sér til nýrrar sköpunar.

Friðrik Erlingsson.

Verkefnastjóri Oddafélagsins.

 

Blómameyjar.
Blómameyjar.
Eyjólfur og Margrét.
Eyjólfur og Margrét.
Sigurður Ingi, Bergþóra og Ágúst.
Sigurður Ingi, Bergþóra og Ágúst.
Þjóðbúningar.
Þjóðbúningar.
Katrín Jakobsdóttir, forsetisráðherra Íslands.
Katrín Jakobsdóttir, forsetisráðherra Íslands.

Nýjar fréttir