0 C
Selfoss

Fyrir ungar fjölskyldur

Vinsælast

Draumar okkar og hugsjónir í Samfylkingunni eru um velferðarsamfélag sem er fyrir alla. Þess vegna tölum við fyrir langtímafjárfestingu í menntun, heilsugæslu og umönnun barna. Þarna er grundvöllur velferðarinnar og eitt af einkennum norræna velferðarkerfisins. Við eigum langt í land að ná hinum norrænu ríkjunum á ýmsum sviðum, ekki síst þegar um stuðning við ungar fjölskyldur er að ræða.

Ungt barnafólk sem er að hefja sinn feril á vinnumarkaði er gjarnan um leið að koma sér þaki yfir höfuðið. Kostnaðurinn við þarfir barnanna, fæði, klæði og tómstundir, bætist þar við. Og fyrir vikið verður álagið enn meira á fjölskyldurnar eða þá að barneignum er frestað.

Barnafólk með meðaltekjur hér á landi veit ekkert hvað ég er að tala um þegar ég nefni barnabætur sem búbót fyrir ungar fjölskyldur. Þau hafa aldrei fengið útborgun frá ríkinu sem ætluð er til að jafna stöðu þeirra gagnvart hinum sem ekki eru með börn á framfæri. Og það er ekkert skrítið því samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar byrja barnabæturnar að skerðast við lágmarkslaun sem eru nú 351 þúsund krónur á mánuði. Skerðingarnar hafa það í för með sér að einstaklingar sem eru með rúmar 600 þúsund krónur á mánuði fá ekkert. Auk þess eru bæturnar greiddar út fjórum sinnum á ári en ekki mánaðarlega og verða því ekki eðlilegur partur af mánaðarlegum rekstri heimilisins.

Ef barnabætur yrðu greiddar út mánaðarlega þá væru þær óskertar 31.208 kr á mánuði með einu barni undir 7 ára hjá sambúðarfólki en 44.225 kr til einstæðra foreldra. Ef börnin eru tvö og annað undir 7 ára yrði greiðslan 54.475 kr á mánuði hjá sambúðarfólki en 77.625 kr  hjá einstæðum foreldrum.

Forgangsröðum skiptir máli

Í norrænu velferðarríkjunum eru barnabætur hvergi  tekjutengdar nema í Danmörku, en þar hefjast skerðingar við mjög háar tekjur.

,,Þetta er alltof dýrt“ segja íhaldsflokkarnir. Ef við tækjum það skref á næsta kjörtímabili að einstaklingar með 600 þúsund krónur á mánuði fái óskertar barnabætur þá þyrftum við að auka framlögin um 9 milljarða króna á ári. Ríkisstjórnin ákvað að lækka skatta á banka og breyta skattstofni fjármagnstekna sem kostaði álíka upphæð fyrir ríkissjóð. Þetta er allt spurning um forgangsröðun stjórnvalda. Við í Samfylkingunni röðum ungum fjölskyldum framar.

Ég hef sem þingmaður lagt fram fjöldann allan af tillögum um betri kjör fyrir barnafólk. Flestar hafa verið felldar. Ég nýtti tækifærið þegar ég var fjármálaráðherra 2012 og sá til þess að barnabætur hækkuðu um 30% á milli ára. Fleiri ungar fjölskyldur fengu þá bætur en nú. Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn sem tóku við eftir kosningar 2013, vildu frekar lækka veiðigjöldin en hækka barnabætur og komast nær því sem gerist í norrænum velferðarríkjum. Núverandi ríkisstjórn fylgir sömu stefnu.

Það þarf að gera betur fyrir ungar fjölskyldur. En til þess þarf nýja ríkisstjórn eftir kosningar. Ríkisstjórn jafnaðarmanna.

Oddný G. Harðardóttir,
þingmaður og oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi

Nýjar fréttir