-3.5 C
Selfoss

Samið um rekstur Bankans Vinnustofu á Selfossi

Vinsælast

Tilraunaverkefni í samstarfi ríkis, sveitarfélags og atvinnulífs sem byggir á verkefninu Störf án staðsetningar.

Í dag undirrituðu Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltúi Svf. Árborgar og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins samkomulag við Sigtún Þróunarfélag um rekstur vinnustofu í Landsbankahúsinu á Selfossi, sem Sigtún keypti í vor. Bankinn Vinnustofa opnar í lok sumars.

Um er að ræða fyrsta flokks nútíma skrifstofuaðstöðu fyrir um 120 manns sem byggir á þeirri hugmyndafræði að í ljósi tækniþróunar og afleiðinga Covid 19, er starfsfólk stofnana og fyrirtækja um allan heim farin að vinna fjölbreytt störf og verkefni óháð staðsetningu. Jafnframt er af umhverfisástæðum hvatt til þess að dregið sé úr löngum ferðum í og úr vinnu.

Í Bankanum Vinnustofu verður boðið upp á alhliða aðstöðu; lítil og stór rými, fundarherbergi, setustofur og tæknibúnað á tveimur efstu hæðum hússins á um 500 fermetra svæði. Þar verða jafnframt fyrirlestrar og aðrir viðburðir fyrir þátttakendur. Aðstaðan, sem opar síðsumars, býður upp á fjölbreytta notkun. Vonast er til að Sunnlendingar sem vinna á Höfuðborgarsvæðinu geti nýtt aðstöðuna t.d. í nokkra daga í viku í stað daglegra ferða yfir Hellisheiðina. Þá geti smærri sunnlensk fyrirtæki og einyrkjar átt vísan stað í Bankanum Vinnustofu og auk þess gæti aðstaðan nýst þeim sem búa í sumarhúsum hluta úr ári.

„Störf án staðsetningar er hugmyndafræði sem veitir byggðum landsins stórkostlegt
tækifæri til að vaxa og dafna. Það samstarf sem felst í sameiginlegri undirritun ríkisins, sveitarfélagsins, Samtaka atvinnulífsins og einkaaðila á Selfossi færir stefnuna um störf án staðsetningar af hugmyndastiginu yfir í markvissar aðgerðir og uppbyggingu“, segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra.

„Tæknilega er hægt að vinna mörg störf heiman frá sér með fjarbúnaði, en fyrir starfsfólk er gríðarlega mikilvægt að vera innan um aðra, að vera hluti af daglegu vinnusamfélagi sem á landsbyggðinni fæst einmitt með því að leiða fólk úr ólíkum greinum saman á fallegum stærri vinnustað eins og hér er stefnt að. SA styður þetta framtak með heilum hug og hvetur allt atvinnulífið til að kynna sér verkefnið á næstu mánuðum“, segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

„Verkefnið eykur aðdráttarafl Árborgar sem búsetukost fyrir vel menntað fólk í ábyrgðarstöðum. Fólk með góða menntun og mörg atvinnutækifæri sækist eftir fallegu og nútímalegu vinnuumhverfi; góðu aðgengi að nýrri tækni og áhugaverðum félagsskap. Um er að ræða einstakt tækifæri til að skapa á Selfossi vandaðan vinnustað og vinnusamfélag sem eykur atvinnutækifæri og nýsköpun, byggir upp þekkingarklasa, eykur hagnýtingu í þróun skrifstofurýma fyrir starfsfólk sveitarfélagsins og gefur sveitarfélaginu einstakt tækifæri til að taka forystu á landsvísu í nútíma atvinnuuppbyggingu“, segir Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi í Árborg.

„Samstarf við þessa þrjá aðila, ríki, sveitarfélag og atvinnulíf, er undirstaðan sem þarf til þess að svona verkefni geti farið af stað. Framkvæmdir eru hafnar innanhúss við að gera þetta frábæra hús tilbúið fyrir nýtt hlutverk, og nú er það okkar að kynna heimamönnum og fyrirtækjum möguleikana, sjá til þess að tilraunin skili árangri og Bankinn Vinnustofa verði eftirsóttur valkostur fyrir fólk og fyrirtæki til framtíðar“, segir Vignir Guðjónsson framkvæmdastjóri Sigtúns Þróunarfélags.

Þessir þrír aðilar, ríki, sveitarfélag og SA, koma að tilraunaverkefninu í tvö ár í upphafi með framlagi sem byggir á aðgangi starfsmanna og aðkomu að þróun starfseminnar, t.d. með sameiginlegu kynningarstarfi og samstarfsverkefnum.

Random Image

Nýjar fréttir